Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 22:12:51 (11891)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það þannig að menn verða alltaf að gefa sér einhverjar forsendur ef þeir vilja sýna reikningsdæmi inn í framtíðina, ef þeir vilja sýna framþróun á þeim þrepum sem veiðigjaldi er ætlað að koma inn á. Það er eðlilegt að menn sýni reikningsdæmi, framreikning á því hvernig tekjurnar mundu þróast miðað við óbreyttar forsendur. Það er að sjálfsögðu ekkert annað sem menn eru að segja þar. Miðað við forsendurnar eins og þær liggja fyrir í dag mundi þetta þróast svona. Að sjálfsögðu er ekki með því verið að fullyrða að þær verði nákvæmlega þannig, t.d. hvað varðar gengið.

Svo ég svari þeirri spurningu fyrir mig og kannski meira sem efnahags- og viðskiptaráðherra en sjávarútvegsráðherra, ég tel að efnahagslegar forsendur séu fyrir því að gengið styrkist eitthvað á Íslandi, en hve mikið það á að styrkjast eða hve mikið væri farsælt að það styrktist er önnur saga. Þar er ég ekki endilega sammála Alþýðusambandi Íslands að við værum öll betur sett bara með því að gengið styrktist í hvelli um 20%, því að það mundi hafa víðtækar afleiðingar. Það mundi að sjálfsögðu gjörbreyta rekstrarskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreinanna. Ég geri ráð fyrir að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði mundi að mestu leyti hverfa við slíkar aðstæður. Hvernig mundum við þá ráða (Forseti hringir.) við okkar erlendu skuldir o.s.frv.? Ég held nú að einhver hóflegri þróun í þessum efnum væri (Forseti hringir.) efnahagslega farsælli.