Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 22:14:14 (11892)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans. Ég hef áhuga á að spyrja ráðherrann hvort hann telji að hann sé orðinn einhvers konar nýlenduherra á Íslandi. (Gripið fram í.) Í skýrslu sem Vífill Karlsson skrifaði 2005 segir hann að fyrir liggi að mikil vansköttun sé í Reykjavík en ofsköttun á landsbyggðinni. Það endurspeglast meðal annars í því að af tekjum hins opinbera er 75% þeirra ráðstafað í Reykjavík en aðeins 42% er aflað hér, á meðan 25% opinbers fjár er ráðstafað úti á landi og 58% þess aflað þar. Og með þeim tillögum sem lagðar eru til varðandi veiðigjaldið get ég ekki betur séð, ef ég skoða bara fjárfestingaráætlunina sem kynnt var nýlega, en að menn ætli heldur að bæta þar í. (Forseti hringir.) Þegar ég nota orðið nýlenduherra er ég að vitna í Vífil Karlsson þar sem hann talar um nýlendustefnu höfuðborgarinnar þá þegar. (Forseti hringir.) Hér sýnist mér að heldur betur sé verið að bæta í.