Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 23:03:50 (11904)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hluti af því sem ég gerði hér að umtalsefni er tekinn inn í breytingartillögurnar eins og það mikilvæga atriði sem þar er sett inn, þ.e. reiknaður afsláttur af vaxtakostnaði vegna kvótakaupa. Talið er að vaxtaberandi skuldir sjávarútvegsins séu um 340 milljarðar um síðustu áramót, sem er þekkt kennitala á móti 250 milljörðum sem tekjur og 175 sem gjöld, þ.e. 75 milljarðar sem framlegð eða EBITDA.

Afslátturinn sem þarna er settur inn, sem er ákaflega mikilvægt atriði í breytingartillögunum og kannski eitt af því merkilegasta fyrir utan neikvæða rentu, kemur má segja úr þeirri skoðun sem þar var gerð til að koma til móts við, eins og ég sagði í ræðu minni, skuldsettar útgerðir sem mestar og flestar eru í krókaaflamarkskerfinu og þær útgerðir sem hafa verið að kaupa sér heimildir á undanförnum árum (Forseti hringir.) til þess að geta stundað starfsemi sína þegar leigumarkaðurinn minnkaði í landinu.