Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 23:06:21 (11906)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður spyr mig um — og sem hagfræðingurinn Daði Már Kristófersson ræddi meðal annars um á löngum fundi og eftir margar spurningar og góðar umræður í nefndinni með honum — þ.e. það sem hann sagði með að festa pottana í hlutdeild, ég hef oft heyrt þetta áður, þetta hefur oft komið til tals í vinnu nefndarinnar og á fundum sem menn hafa átt fyrir utan nefndarfundi þar sem áhugasamir aðilar og menn í greininni vilja færa þetta í tal við mann. Ég vil ekki segja beint að það komi til greina en ég hef hins vegar sagt, og mér er alveg sama hvort það er varðandi þetta mál eða eitthvert annað mál, að hin þinglega meðferð er fólgin í því að ef menn koma með góðar tillögur sem gott er að útfæra og bæta mál, drottinn minn dýri, auðvitað er þá tekið tillit til þeirra.

Ég get nefnt sem dæmi, virðulegi forseti, það sem gagnrýnt hefur verið í breytingartillögum, þ.e. (Forseti hringir.) að aflamark mætti ganga milli kerfa, bæði stóra og litla kerfisins, ég hef hlustað á þá gagnrýni sem (Forseti hringir.) þar hefur komið fram. Mér finnst hún afar athyglisverð og jafnvel réttlát.