Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 23:10:11 (11909)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvort, miðað við 75 milljarða framlegð, 15 milljarða veiðigjald væri hátt eða lágt. Í fyrsta lagi þarf að svara því með hliðsjón af stóra veiðifrumvarpinu og í öðru lagi skiptir öllu máli hvernig það er útfært. Við vitum að mörg sjávarútvegsfyrirtæki þurfa á mestallri sinni framlegð að halda til þess að standa undir fjármagnsliðunum og fyrir þau er 15 milljarða gjaldtaka af 75 milljarða framlegð býsna há. Þess vegna skiptir aðferðafræðin gríðarlega miklu máli. Við vitum að eins og þetta mál fór af stað var aðferðafræðin algjörlega í skötulíki, þetta var alveg fáránlega illa unnið mál. Þess vegna er það út af fyrir sig jákvætt að búið er að vinna dálítið í málinu.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunum með okkur hérna. Við höfum kallað eftir því að aðrir en hv. þingmaður, sem hefur setið þessa umræðu ágætlega, úr meiri hluta atvinnuveganefndar kæmu hingað til fundarins. Tveir þeirra stungu nefinu aðeins inn í smátíma, hurfu svo af vettvangi (Forseti hringir.) og hafa ekki látið sjá sig og það er til skammar en (Forseti hringir.) hv. þingmaður á þakkir skildar fyrir þátttöku sína í umræðunni.