Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 23:12:59 (11911)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt að gerðar hafa verið ýmsar breytingar á frumvarpinu frá því það var lagt fram upphaflega, og skárra væri það nú því að það frumvarp hefði engan veginn gengið upp. Það frumvarp gerði ráð fyrir 50 milljarða kr. veiðigjaldi miðað við þann útreikning sem það lagði af stað með. Að vísu var ekki talað um það í greinargerðinni en frumvarpið hefði leitt til 50 milljarða kr. gjaldtöku eins og sérfræðingar nefndarinnar komust að raun um þegar þeir fóru að skoða það. Það er því ekki skrýtið að meiri hluti nefndarinnar hafi orðið að hverfa frá svoleiðis bölvaðri vitleysu. Síðan eru líka gerðar aðrar breytingar, til dæmis hvað varðar skuldsettar útgerðir og það er sannarlega til bóta.

Það sem er hins vegar alvarlegt í þessu er að heildarmarkmiðið er að fara með veiðigjaldið upp í það að það sé áfram, þegar allt er komið í kring, 70% af gjaldstofninum alveg eins og lagt var af stað með í upphafi. Að vísu er búið að minnka þann gjaldstofn en engu að síður er framtíðarsýnin þessi: 70% gjaldtaka, sem er auðvitað alveg fráleit og allt of há, hún á síðan að gefa rúmlega 20 milljarða kr. miðað við óbreytt gengi.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Sér hann fyrir sér að gengi íslensku krónunnar muni styrkjast á næstu árum? Sér hann fyrir sér að 20 milljarðar kr. muni verða sú tala sem verði til ráðstöfunar í veiðigjaldinu (Forseti hringir.) eftir tvö, þrjú eða fjögur ár?