Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 23:19:33 (11916)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að jafnaðarmennirnir ég og hv. þm. Eygló Harðardóttir deilum alveg skoðunum hvað það varðar að koma til móts við ýmislegt á landsbyggðinni. Ég á mér þann draum að hluti af þessu veiðileyfagjaldi auki þann pott sem notaður er til jöfnunar flutningskostnaðar, sem komið er á fót í tíð þessarar ríkisstjórnar eftir 10–20 ára baráttu.

Við getum líka notað hann til að greiða niður og jafna upphitunarkostnað húsnæðis. Öll þessi atriði eru hér inni og koma til álita þegar fram líða stundir og á næstu árum. Þeir um það bil 10 milljarðar sem koma inn með nýju veiðileyfagjaldi, sérstaka gjaldinu, eru að stórum hluta settir í þá fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin hefur kynnt og sett er þar fram, þó svo að vafalaust megi alltaf deila um hvernig það skiptist nákvæmlega milli landshluta.

Virðulegi forseti. Ég má til með að segja í lokin, (Forseti hringir.) vegna þess að hér er talað um stefnu Framsóknarflokksins, að mér þótti það ákaflega góð grein sem tveir þingmenn skrifuðu í blað ekki alls fyrir löngu. (Forseti hringir.) Þar er í fyrsta skipti talað um nýtingarleyfi en ekki nýtingarsamninga, sem er í frumvarpinu.