Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 23:21:02 (11917)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér er til umræðu snertir skattlagningu á sjávarútveginn út frá tilteknum forsendum. Ég vil í upphafi ræðu minnar eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað margir gera athugasemdir við það að þetta mál sé tekið til umræðu á undan frumvarpinu um stjórn fiskveiða sem felur í sér róttækar kerfisbreytingar á sjávarútveginum. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður um einn fund í salnum.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir verulegum breytingum á því stjórnkerfi sem sjávarútvegurinn býr við og þar með á forsendum rekstrar í greininni. Mér finnst augljóst, eins og bent hefur verið á fyrr í þessari umræðu, að það er hæpið að ætla sér að ræða um veiðileyfagjald, hvað þá að slá einhverju föstu um gjaldþol greinarinnar eða áhrif gjaldtökunnar á greinina nema grundvallarforsendur eins og þær sem felast í löggjöf um stjórn fiskveiða liggi fyrir. Því má segja eins og með margt í málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna á þingi að verið sé að fara í hlutina í öfugri röð.

Hugsanlega á það rætur að rekja til þess að hv. þingmenn stjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd telji að þetta mál sé einfaldara viðureignar og vilji keyra það í gegn þess vegna. Hugsanlega kann það að stafa af því að einhverjir í þeirra hópi telji að það séu meiri líkur á því að þetta frumvarp komist í gegn en hitt og vilji klára það, og er síðan ósárt um það þó að hitt bíði um ótilgreindan tíma. Það kann að vera, ég veit það ekki, en út frá efni málsins sjálfs er augljóst að hitt hefði verið skynsamlegri röð á hlutunum. Fyrst þurfum við að átta okkur á rekstrarforsendunum í greininni, eftir hvaða leikreglum menn eigi að starfa á sviði sjávarútvegs og útgerðar á Íslandi og síðan er það afleidd stærð hvernig menn ætla að haga skattlagningunni á þá grein. Þetta vildi ég segja í upphafi, hæstv. forseti.

Áður en ég kem að meginmáli ræðu minnar eru örfá atriði sem ég vil drepa á til viðbótar sem varða atriði sem hér hafa verið rædd fyrr í kvöld. Ég veiti því athygli að hér er tíðum vísað til fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir viku og talað um að sú skattlagning sem þetta frumvarp felur í sér, kannski fyrst og fremst á fyrirtæki á landsbyggðinni, muni vissulega skila sér aftur með einhverjum hætti til landsbyggðarinnar. Ég heyrði reyndar á hv. þm. Kristjáni Möller rétt áðan að hann var farinn að hugsa sér enn fleiri útgjaldaliði sem veiðileyfagjaldið gæti gefið kost á en er að finna í þessari fjárfestingaráætlun. Um þessa umræðu vil ég einfaldlega halda því til haga að fjárfestingaráætlunin sem slík er hreinasta firra þegar ekkert er fast í hendi með þá fjármuni sem þar eiga að vera til ráðstöfunar og verður auðvitað að líta á sem einhvers konar kosningaplagg, einhvers konar gulrót sem á að veifa framan í kannski tiltekin svæði á landsbyggðinni til að reyna að draga úr þeirri miklu andstöðu við þessi sjávarútvegsfrumvörp sem orðið hefur vart á síðustu mánuðum. Það verður að líta þannig á það.

Það að gera eins og hv. þingmenn og hæstv. ríkisstjórn hafa gert, byrja á því að úthluta út og suður væntum tekjum vegna veiðileyfagjaldsins er fullkomlega ábyrgðarlaust þegar ekkert liggur fyrir um örlög þessa frumvarps, þegar ekkert liggur fyrir um það hverjar rekstrarforsendur verða í greininni til framtíðar og þegar ekkert liggur fyrir um það hvaða fjármunir verða þá til ráðstöfunar. Bara svo dæmi sé tekið hafa verið kynntar áætlanir um það hvernig eigi að ráðstafa þeim tekjum sem innheimtast munu af veiðileyfagjaldinu ein tíu ár fram í tímann með þessari fjárfestingaráætlun. Mér finnst menn harla djarfir í þeirri áætlanagerð og verður að líta svo á, eins og ég sagði áðan, að eingöngu sé um að ræða einhvers konar kosningaplagg, eitthvað sem er verið að veifa framan í fólk á tilteknum stöðum á landinu til að draga úr þeirri miklu andstöðu sem hefur komið fram við þessi sjávarútvegsfrumvörp. Þetta vildi ég segja um það.

Annað atriði sem hér hefur verið komið inn á á síðustu klukkutímum er umræðan í tengslum við áhrif gengisþróunar á þær tekjur sem náist með veiðileyfagjaldinu. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur ítrekað vakið athygli á því að miðað við útreikninga frá hæstv. ríkisstjórn og af hálfu hv. stjórnarliða í umræðunni virðist sem gert sé ráð fyrir því að gengið muni ekki styrkjast eða ekki mikið. Það kann að vera raunsætt mat, ég ætla ekki að dæma um það, en menn verða þá að horfa á það í tengslum við aðra hluti, aðrar áætlanir sem uppi eru.

Ef það er mat manna að veiðileyfagjaldið muni skila þeim tekjum sem áætlanir gera ráð fyrir á næstu árum hljótum við að draga þá ályktun að menn reikni með að gengið verði með svipuðum hætti og það er í dag. Þýðir þetta þá að þeir sem þannig tala geri ráð fyrir því að við förum inn í evrusamstarf á núverandi gengi eða einhverju slíku? Hafa menn velt fyrir sér hvað það þýðir ef við förum inn í evrusamstarf á núverandi gengi? Ég er ekki viss um að það sé endilega svo björt mynd sem blasir við íslenskum almenningi ef sú yrði raunin. Þetta vildi ég nefna vegna þessarar umræðu.

Þriðja atriðið af þessum toga sem ég vildi drepa á er það sem ráða mátti af orðum hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Kristjáns Möllers, um að vera kynni að þetta hlutfall, 70% sem hlutfall af rentunni, væri hugsanlega of hátt. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann áliti að það gæti verið. Þess vegna teldi hann að við gætum hugsanlega á næstu þrem til fjórum árum tekið ákvörðun um að lækka það hlutfall. Ég held að þetta geti verið alveg hárrétt mat hjá hv. þingmanni, en þá spyr ég: Hvers vegna ætlum við að lögfesta þetta háa hlutfall ef menn eru þeirrar skoðunar að það kunni að vera ástæða til að lækka það í fyrirsjáanlegri framtíð? Eigum við ekki að staldra við, eigum við ekki að hugsa okkur um, eigum við ekki að velta fyrir okkur hvort það er tilefni til þess að fara svona hátt núna áður en við setjum þessi lög frekar en að setja markið svona hátt og fara síðan í að lækka það innan mjög skamms tíma? Þetta vildi ég sagt hafa í tilefni af þessum ummælum.

Það leiðir mig að öðru, að vangaveltum um stöðu þessa máls núna í þinginu. Það er rétt sem fram hefur komið að umræðan er rétt að byrja. Hér hafa í dag fyrst og fremst talað talsmenn flokkanna úr hv. atvinnuveganefnd og fáir aðrir. Ég hygg að það séum eingöngu við hv. þm. Helgi Hjörvar sem höfum tekið til máls í þessari umræðu og erum ekki í þeim hópi að vera talsmenn okkar flokka í atvinnuveganefnd sem og reyndar hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. Það er ljóst að umræðan er rétt að byrja.

Ég velti fyrir mér hvort skilja megi ummæli sem hér hafa fallið, t.d. hjá hv. þm. Kristjáni Möller og raunar líka ef reynt er að lesa í orð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem einhvers konar vísbendingu um að möguleiki sé að ná frekara samkomulagi um lausnir þessara mála, að sú niðurstaða sem varð í atvinnuveganefnd fyrr í vikunni og skilar sér í því nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir sé að þeirra mati ekki endanleg. Eigum við að skilja orð þeirra með þeim hætti að það kunni að vera ástæða til að taka málið einhvern veginn til frekari umfjöllunar með það að markmiði að reyna að ná breiðari sátt um niðurstöðuna? Ég velti þessu fyrir mér og varpa því inn í umræðuna. Ég get ekki svarað því, ég á ekki sæti í hv. atvinnuveganefnd þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvaða umræður hafa átt sér stað þar. Mér skilst þó að ekki hafi verið samstaða um að ljúka málsmeðferðinni fyrr í vikunni heldur hafi málið endað þar í ágreiningi en látum það vera. Burt séð frá því hvernig þeim málum var háttað vil ég varpa því inn í þessa umræðu hvort það kunni að vera tilefni til að taka þetta mál einhvern veginn úr þeim ágreiningi sem það er í núna í einhvern annan farveg. Er möguleiki á því? Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur að velta því fyrir okkur og kannski verður færi fyrir menn að velta því fyrir sér yfir sjómannadagshelgina. Ég kann ekki að svara því, það eru aðrir sem væntanlega munu bera hitann og þungann af því en miðað við þau ummæli sem hafa fallið hérna spyr maður hvort tilefni eða forsendur kunni að vera til þess.

Ég dreg ekki úr því að þá hlýtur að vera ástæða til að skoða það í samhengi við frumvarpið um stjórn fiskveiða. Auðvitað erum við að tala um tvö frumvörp sem hafa með sínum hætti áhrif á sömu atvinnugrein, sömu fyrirtæki, þannig að auðvitað er það einhver heildarmynd sem þarf að skoða. En ég velti fyrir mér hvort það eigi að líta svo á að þarna séu einhverjar nýjar forsendur. Ég bendi hæstv. forseta á það til upplýsingar og áminningar, og hv. formaður atvinnuveganefndar hlýðir á mál mitt þannig að hann getur tekið mið af því ef hann vill að samkvæmt þingsköpum er heimilt að taka mál til nefndar jafnvel þó að umræða standi yfir. Það er ekki skilyrði að til dæmis 2. umr. um þingmál sé lokið til þess að hægt sé að taka það til nefndar og fara yfir það, sérstaklega ef það mætti verða til þess að sætta með einhverjum hætti ólík sjónarmið. Ég veit ekkert hvort það eru forsendur til þess en ég varpa þessu fram í ljósi þeirra ummæla sem fallið hafa hér fyrr í kvöld.

Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að fjalla um í þessari ræðu minni snertir athugasemdir sem fram hafa komið við frumvarpið á lögfræðilegum grundvelli. Ég játa að þar er ég á ívið meiri heimavelli en í hinum eiginlegu sjávarútvegsmálum enda liggur bakgrunnur minn frekar á því sviði. Ég tel að þar sé um að ræða athugasemdir sem eru þess eðlis að það þurfi að takast á við þær og það með ítarlegri og greinarbetri hætti en gert hefur verið fram til þessa. Ég ætla að nefna að það hefur verið vísað til þess, bæði í nefndarálitum og hér í ræðum, að margir lögfræðingar hafa gert athugasemdir við þetta frumvarp. Ætla ég þá ekki að fjalla um hitt frumvarpið sem ekki er til umræðu núna heldur bara það sem hér liggur fyrir. Ég bendi á að þeir lögfræðingar margir sem um þetta fjalla mundu væntanlega teljast með helstu sérfræðingum landsins á sviði löggjafar sem snertir sjávarútveginn, sem snertir eignarrétt og tengsl hans við stjórnskipan landsins.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. atvinnuveganefnd hefur farið yfir athugasemdirnar, hvernig hún hefur vegið þær og metið. Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar er að sönnu kafli um stjórnskipuleg álitamál en það er það sem ég er fyrst og fremst að fjalla um hér. Segja má að ýmislegt í því sem kalla má frásögn af þeim athugasemdum sem fram hafa komið sé ágætt en hins vegar verð ég að segja að mér finnst niðurstöður nefndarinnar hvað þetta varðar ekki nægilega vel rökstuddar og ekki rökstuddar á sannfærandi hátt.

Ég ætla að fara örfáum orðum um þær athugasemdirnar sem ég tel fyrst og fremst ástæðu til að staldra við í þessu sambandi. Ég nefni bara áður en lengra er haldið að það er nokkur framför í öllu þessu máli að tekinn er af allur vafi um að í lögfræðilegum skilningi er hér um skatt að ræða. Þetta hefur stundum verið kallað leigugjald og stundum endurgjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind og því hafa verið valin ýmis heiti. En allir eru sammála um það, sýnist mér, sem um þetta hafa fjallað út frá lögfræðilegum sjónarmiðum að ekki sé hægt að líta á þetta veiðigjald öðruvísi en sem skatt og tek ég undir það með hv. 1. minni hluta atvinnuveganefndar að auðvitað væri þessi skattur réttnefndari veiðiskattur en veiðigjald. Það kann að vera smekksatriði en um skatt er að ræða, á því leikur enginn vafi, þetta er skattur í lagalegum og stjórnskipulegum skilningi og þarf að lúta þeim lögmálum sem skattar lúta í landinu. Þetta er þannig séð ekki neitt þjónustugjald, ekki tengt neinni þjónustu sem greiðandinn á að fá í staðinn eða neitt slíkt, gjaldstofninn er ekki ákvarðaður með neinum slíkum hætti. Þetta er skattur í skilningi laga og stjórnarskrár og þarf að horfa á hann sem slíkan. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að þetta hefur auðvitað verið á reiki á umræðunni fram til þessa.

Aftur að athugasemdunum. Við skulum ekki gera lítið úr einu atriði sem hefur verið bent á í því sambandi og það er spurningin um afturvirkni skattalaga. Það er óumdeilt að samkvæmt stjórnarskrá eiga skattalög ekki að vera afturvirk. Það er skýrt og enn þá skýrara eftir breytingu á stjórnarskrá 1995 að óheimilt er að skattleggja aftur í tímann. Það hefur verið vakin athygli á því að sú aðferð sem liggur til grundvallar gjaldtökunni í þessu frumvarpi geti falið í sér afturvirkni og ég verð að segja — ég ætla ekki að kveða upp úr með það, ég held að þetta geti verið verulegt álitamál sem kynni að enda hjá dómstólum, en til þess að draga úr líkunum á því vil ég beina því til hv. atvinnuveganefndar að skoða þennan þátt betur, bæði röksemdir þeirra lögmanna sem hafa vakið athygli á hættunni á afturvirkni í þessu sambandi og finna þá framsetningu sem dregur úr hættunni á að litið verði svo á að um afturvirka skattlagningu sé að ræða. Þetta er eiginlega vinsamleg ábending vega þess að ég er viss um að fari þetta í gegn, eins og það lítur núna út, er veruleg hætta á að um yrði að ræða neikvæða niðurstöðu fyrir ríkissjóð í dómsmáli sem af þessu gæti hlotist þótt ég geti ekki fullyrt um úrslit dómsmála frekar en aðrir. Hættan er fyrir hendi og það er ekki ábyrgt af hálfu hv. atvinnuveganefndar að afgreiða málið endanlega frá sér nema hún sé búin að skoða þetta í þaula. Ég verð að segja að sá rökstuðningur sem er að finna í nefndaráliti meiri hlutans er harla grunnur hvað þetta varðar að mínu mati og ég er eiginlega viss um að vilji meiri hlutinn halda sig við frumvarpið óbreytt að þessu leyti þarf að minnsta kosti að koma með betri og meira sannfærandi rökstuðning til að sannfæra mig og væntanlega ýmsa aðra lögfræðinga um að þetta sé í lagi.

Hið sama á við um það atriði sem nefnt hefur verið framsal skattlagningarvalds. Samkvæmt íslenskri stjórnskipan og raunar alþjóðlegum sáttmálum sem við eigum aðild að, m.a. mannréttindasáttmála Evrópu, er ótvírætt að skattamálum skuli skipa með lögum. Það er alveg ljóst, bæði eftir stjórnarskrárbreytingu 1995 og eins ef litið er til dómaframkvæmdar á síðustu árum, að kröfur dómstóla til skýrleika lagaheimilda sem fela í sér skattlagningu hafa frekar aukist en hitt. Dómstólar gera stífari kröfur til þess að um skattamál séu skýr ákvæði í lögum þannig að til dæmis stjórnvöldum séu ekki faldar heimildir sem jafna má til skattlagningarheimilda. Þá horfum við á ákvæði þessa frumvarps og það er auðvitað ljóst að í ákvæðum frumvarpsins, 8. gr. og fleiri, eru ákvæði sem hafa áhrif á skattlagninguna og eiga að vera til leiðbeiningar. Engu að síður er ljóst að mjög mikilvægir þættir varðandi skattlagninguna munu fyrst og fremst ákvarðast af forsendum sem eru ekki lögbundnar og af ákvörðunum ráðherraskipaðrar nefndar, veiðigjaldsnefndar. Ég mundi halda að þær athugasemdir lögmanna sem fram hafa komið hvað þetta varðar séu vel undirbyggðar, vel rökstuddar og gefi tilefni til þess að hv. atvinnuveganefnd fari miklu dýpra í þennan þátt en ráða má af nefndarálitinu að gert hafi verið. Það má segja að kaflinn um þetta í nefndaráliti meiri hlutans sé frekar stuttur, það er vísað til þess. Ég vitna beint í nefndarálitið, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað skýrleika gjaldheimilda varðar bendir meiri hlutinn á að sérstakt veiðigjald er ítarlega útfært í 8.–10. gr. frumvarpsins. Þannig er skilgreining gjaldsins og gjaldhæð skýrlega framsett, frádráttur og frávik tilgreind sérstaklega, gjaldstofn og grundvöllur upplýsingaöflunar koma vel fram auk þess sem reiknuð renta er skilgreind sérstaklega. Að auki gerir frumvarpið ráð fyrir því að sérstök nefnd, veiðigjaldsnefnd, ákvarði sérstaka veiðigjaldið í samræmi við ákvæði frumvarpsins og þær upplýsingar sem það skal byggt á og ráðherra gert að birta fjárhæðir veiðigjalda á tilteknum tíma fyrir álagningu.“

Ég verð að segja að þessi kafli svarar að mínu mati ekki með neinum hætti þeim athugasemdum sem hafa komið fram um þetta. Ef litið er til þeirra ákvæða frumvarpsins sem þarna er vísað til, 8.–10. gr., er alveg ljóst að margar eyður eru í lagatextanum sem stjórnvöld eiga síðan að fylla upp í, veiðigjaldsnefnd og síðan stofnanir sem eiga að leggja til upplýsingar o.s.frv. og allt gott um það að segja, það er gott að fá upplýsingar. Það sem hins vegar vantar upp á er að það sé skýrt í lögunum hver skatturinn eigi að vera. Það er ekki fullnægjandi að vísa til þess að nefnd eigi að ákveða skattinn, finna hann út og ráðherra eigi að birta fjárhæðir á tilteknum tíma fyrir álagningu og þess háttar, það er ekki fullnægjandi. Áður en málið verður afgreitt legg ég mjög að hv. atvinnuveganefnd að skoða þetta nánar og leita álits á þessum þætti sérstaklega þannig að það sé eins og í því atriði sem varðar afturvirkni skattlagningar dregið úr líkunum á því að þetta mál eigi eftir að enda fyrir dómstólum. Við útilokum auðvitað ekki að málið fari fyrir dómstóla nái frumvarpið fram að ganga með einum eða öðrum hætti en því betri skoðun sem atriði af þessu tagi fá á vettvangi þingnefndarinnar og því betri sérfræðileg skoðun á þessu sem á sér stað, því minni líkur eru á að menn fari út fyrir eðlileg mörk hvað þetta varðar. Það er alveg full ástæða fyrir hv. þingnefnd að taka það alvarlega þegar lögmenn og lögfræðingar sem hafa áralanga reynslu á þessu sviði láta í ljósi áhyggjur af þessu tagi. Athugasemdir þeirra eru vel rökstuddar og þá þarf að minnsta kosti að koma með nokkuð sannfærandi og ítarlegan rökstuðning á móti þannig að hægt sé að líta svo á að málið hafi verið skoðað í þaula. Ég mundi halda að að þessu tvennu leyti væri að minnsta kosti mjög óvíst að þessi ákvæði um ákvörðun veiðileyfagjaldsins stæðust stjórnarskrá.

Það eru auðvitað fleiri atriði sem telja má stjórnskipuleg sem snerta þetta mál. Það má líka velta því upp eins og gert er í athugasemdum lögmanna hvort það hve mikil skattlagningin getur orðið hlutfallslega fari að ganga nálægt eignarréttarákvæðum og öðru slíku. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en ég held að þessi atriði séu þess verð að hv. nefnd fari betur yfir þau vegna þess að þarna er um að ræða raunveruleg lögfræðileg álitamál, raunveruleg stjórnskipuleg álitamál og álitamál sem alveg örugglega getur reynt á fyrir dómstólum. Ég spyr: Er ekki betra að Alþingi, löggjafinn, dragi að minnsta kosti úr líkunum á því að ríkissjóður tapi dómsmálum einhvern tímann í framtíðinni vegna þess að löggjafinn hafi farið út fyrir stjórnskipulegar heimildir? Er ekki betra að vera frekar réttum megin við línuna en að taka sénsinn, ef svo má segja, og sjá svo til hvort dómstólar reka þingið til baka með þetta eftir eitt eða tvö ár?

Nú veit ég ekki, hv. þingmenn sem eiga sæti í hv. atvinnuveganefnd geta kannski upplýst mig um það hvaða athugun fór fram á þessum lögfræðilegu athugasemdum sem hér hafa komið fram. Mér er til dæmis ekki ljóst hvort leitað var til einhverra sérfræðinga á þessu sviði til að kalla eftir gagnstæðum álitum eða eitthvað þess háttar, ég er ekki alveg klár á því, það kemur ekkert fram um það í nefndarálitunum. Hafi svo verið og ef einhverjir textar af því tagi liggja fyrir af hálfu sérfræðinga sem vega á móti þeim álitsgerðum sem hér liggja fyrir og finna má í gögnum málsins væri auðvitað fróðlegt að vita af því. Ég bið um að það verði upplýst ef það er fyrirliggjandi. Ég sá ekki til þess vitnað í nefndarálitum eða fann það ekki á netinu sem telja má svör við þessum athugasemdum sem ég hef hér drepið á.

Það er kannski ákveðinn vandi í þessu að þegar gagnrýni hefur komið fram á þetta frumvarp, og raunar hitt frumvarpið líka, frumvarpið um stjórn fiskveiða, hafa hv. þingmenn stjórnarflokkanna og hæstv. ráðherra verið afar fljótir að blása á gagnrýnina á þeim forsendum að hér væri um að ræða hagsmunatengda aðila, lögmenn sem væru að vinna fyrir einhver fyrirtæki eða atvinnuvegasamtök eða eitthvað þess háttar og reynt að hrista af sér gagnrýnina með því einu en ekki farið í röksemdafærsluna. Hið sama á við um mjög mikið af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á opinberum vettvangi á aðra þætti þessara mála. Gagnrýni frá endurskoðunarfyrirtækjum hefur verið svarað með því að þeir væru að vinna fyrir einhverja hagsmunaaðila, gagnrýni frá fjármálafyrirtækjum hefur líka verið svarað með einhverjum svona hagsmunarökum. Gagnrýni frá sveitarfélögum hefur verið svarað með því að þau væru öll undir hælnum á útgerðarmönnum og frá verkalýðsfélögum vítt og breitt um landið. Því hefur öllu verið svarað með þeim hætti að alltumlykjandi útgerðin væri að pína menn til að álykta gegn þessum frumvörpum.

Það er reyndar athyglisvert og ég get ekki látið hjá líða að nefna að það hefur ekki verið skortur á því að hinir ólíklegustu aðilar í þjóðfélaginu hafi lagst gegn þessum frumvörpum og jafnvel þeir umsagnaraðilar sem eitthvert vægi hafa, jafnvel þeir sem láta í ljósi einhverjar jákvæðar skoðanir á þessum frumvörpum, hafa engu að síður gert alvarlegar athugasemdir. Ég minni til dæmis á athugasemd Alþýðusambandsins sem segist að vísu geta fallist á ýmsar forsendur og aðferð í þessu frumvarpi en varar þó við afleiðingunum. Flestir umsagnaraðilar eru miklu neikvæðari og virðist þar engu máli skipta hvaðan þeir eru eða hverjir þeir eru.

Ég spyr í þessari umræðu, og spyr af einlægni vegna þess að ég á ekki sæti í hv. atvinnuveganefnd: Hafa hv. fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd heyrt í mörgum sem telja má sérfróða á þessu sviði sem hafa lýst ánægju með þessi frumvörp? Hvar eru þeir hagfræðingar sem telja þetta góð og gagnleg frumvörp? Hafa þeir komið fyrir nefndina? Hafa þeir skilað inn umsögnum? Eru einhver sérstök hagfræðileg rök sem hafa verið færð fram til stuðnings þessum frumvörpum?

Ég spyr líka varðandi lögfræðilega þáttinn: Hafa komið fram þeir lögfræðingar sem hafa tekið undir þessi frumvörp og sagt að þau fælu í sér góða útfærslu? Hafa komið fram lögfræðileg sjónarmið sem vega á móti þeim lögfræðilegu sjónarmiðum sem fela í sér gagnrýni á þetta? Hvar liggja þau álit fyrir, hafa þau komið fram? Eru margir gestir sem ekki skiluðu umsögnum sem hafa tjáð sig með þeim hætti? Hafa sveitarfélögin vítt og breitt um landið lýst yfir fögnuði út af þessu? Munið þið eftir því? Ég hef ekki fundið mörg dæmi um það.

Mér sýnist í fljótu bragði að einu aðilarnir sem hafi gefið frá sér einhverjar jákvæðar meldingar um þessi frumvörp séu annaðhvort fastráðnir eða lausráðnir starfsmenn í Stjórnarráðinu. (Gripið fram í: Samfylkingarfélag Keflavíkur.) Jú, reyndar, fyrirgefðu, ég gleymi þeirri ágætu umsögn, stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjanesbæ lýsti yfir stuðningi við þetta. Það vegur nú svolítið, það er ein af hundrað umsögnum.

Það getur auðvitað verið að allir hagfræðingar og lögfræðingar landsins, endurskoðendur, sveitarstjórnarmenn, jafnvel verkalýðsforustumenn séu viljalaus handbendi útgerðarinnar og að einu mennirnir sem eru óspjallaðir af því séu þingmenn stjórnarflokkanna. En ef þeir hafa fundið stuðning við þessi frumvörp meðal sérfræðinga eða hagsmunaaðila bið ég þá að greina frá því hér vegna þess að það hefur ekki komið fram í opinberri umræðu, ég man ekki til þess. Ég spyr hagfræðinga, lögfræðinga og þá sem þekkja til í rekstri fyrirtækja, eins og endurskoðendur, einfaldra spurninga: Snýst þetta allt um það, og ég ætla ekkert að persónugera þetta, að einn ráðgjafi hæstvirts fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi hæstvirts sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur komist að annarri niðurstöðu en allir sérfræðingarnir og þá er fylgt hans ráðum en ekki þeirra? Ég velti því fyrir mér og finnst full ástæða til að spyrja að því. Ef einu sérfræðingarnir sem mæla með þessu frumvarpi eru sérstakur ráðgjafi eins ráðherra og hv. þm. Helgi Hjörvar — og hv. þm. Björn Valur Gíslason, ég ætla ekki að gleyma honum, það er gott að þeim höfundarrétti er haldið til skila — spyr ég: Halda menn að það sé tómur illvilji allra þessara fjölmörgu aðila sem hafa látið í ljósi verulegar áhyggjur af þessum málum, þar á meðal þessu frumvarpi? Halda menn að í landinu sé svona yfirgripsmikið samsæri allra helstu hagsmunaaðila, sveitarfélaga, launþega, atvinnurekendasamtaka og háskólamanna gegn ríkisstjórninni? Ég bið menn að hugleiða þetta.

Ég bið menn að staldra við og ef leiðir eru til þess að taka þetta mál með einhverjum hætti úr ágreiningi og leiða það til lykta þannig að það standi ekki í því stríði sem það er nú í bið ég menn að íhuga möguleika á því. Eins og ég benti hæstv. forseta á áðan bendi ég á að til þess er auðvitað færi. Það er hægt að taka mál til nefndar á hvaða stigi málsmeðferðar sem er, hvenær sem er meðan á umræðu stendur. Ef menn greina einhverja fleti sem hugsanlega megi ná samkomulagi um, af hverju prófa menn það ekki frekar en að láta deiluna halda áfram? Verði ekki einhverjar verulegar breytingar á forsendum þessa máls mun deilan ganga áfram, það er alveg ljóst, hvort sem það verður einn, tveir, þrír eða fleiri dagar i þinginu verður það. (Gripið fram í.)

Það er mikið eftir af árinu, hæstv. ráðherra, það er hárrétt. Við erum óþreyttir, þingmenn, og kvíðum því ekki að halda áfram umræðum um þetta mál því að við, margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, höfum bara gaman af því að taka þátt í þessari umræðu og hlupum ekki úr húsi eins og hæstv. utanríkisráðherra sem stakk af eftir að hafa ásakað okkur um að nenna ekki að vinna hér um áttaleytið í kvöld. En hann hefur ábyggilega haft góðar ástæður fyrir því, sjálfsagt fjarvistarleyfi, en það er engan bilbug á okkur að finna í þessu. Hins vegar held ég að það sé langfarsælast ef menn ná einhvern veginn að ræða málin án þess að vera ofan í skotgröfum. Til þess þurfa menn auðvitað að vera tilbúnir að taka málið úr ágreiningsfarveginum og setja það í einhvern annan farveg. Einhvern veginn ræð ég það af þeim upplýsingum sem lesa má út úr nefndarálitum og frásögnum af því sem gerðist í atvinnuveganefnd að það hafi ekki verið flötur fyrir því þá, hvað sem kann að vera nú.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla nánar um þetta að sinni en ítreka að telji menn að með einhverjum hætti megi breyta gangi þessa máls er sjálfsagt að menn geri það. Telji menn hins vegar að frumvarpið sé komið í það horf að menn séu sáttir við það halda menn áfram með það en þá verður þeirri gagnrýni auðvitað haldið á lofti sem hér hefur komið fram, þótt ekki væri nema í þeirri veiku von að mönnum snerist hugur einhvers staðar á leiðinni, menn áttuðu sig á því að þarna kynni að vera um að ræða skref sem menn ættu að láta ógert að stíga. Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um það að þegar við erum að tala um jafnmikilvæga grein og útgerðina ber öllum skylda til þess að nálgast af varfærni breytingar á lagaumhverfi hennar, þar á meðal um skattlagningu. Í því liggja miklir þjóðhagslegir hagsmunir sem okkur eiga auðvitað öllum að vera ljósir.