140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sérfræðingurinn veltir fyrir sér gjöldum eða sköttum. Í 3. lið athugasemdanna segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til laga um veiðigjöld er lagt til að lögð verði á almenn veiðigjöld og sérstök veiðigjöld. Í skilningi laga eru þessi gjöld skattur. Yfirlýsingar um sameign þjóðar eða þjóðareign á villtum og vörslulausum nytjastofni sjávar hagga þessu ekki.“

Að mati þessa sérfræðingsins er því um að ræða sérstakan skatt sem leggja á á ákveðna aðila í samfélaginu en aðra ekki, og væntanlega er hann þá að velta fyrir sér hvort það geti staðist stjórnarskrá. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta atriði og einnig hvort það sé ekki bara hreinlega full ástæða, eftir að hafa lesið þetta álit og fleiri, til þess að láta sérfræðinga í stjórnarskránni okkar fara í gegnum málið mjög ítarlega til að koma í veg fyrir að verið sé að gera einhverja vitleysu (Forseti hringir.) í þessum efnum.