140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki alveg hvort við hv. þm. Jón Bjarnason mundum ná algjörlega saman ef við ætluðum að búa til byggðastefnu í sameiningu, (JBjarn: Nei, nei …) en ég held hins vegar að við getum verið sammála um að áhrifin af þessum frumvörpum, sérstaklega ef þau næðu bæði fram að ganga í lítt breyttri mynd, það frumvarp sem við ræðum í kvöld og frumvarpið um stjórn fiskveiða, yrðu afleiðingarnar alvarlegar og þær mundu fyrst og fremst koma niður á landsbyggðinni, ég held að það sé nokkuð ljóst. Reykjavík er að sönnu stór útgerðarstaður miðað við aðra staði en vægi sjávarútvegs í Reykjavík er minna en alls staðar annars staðar á landinu, þannig að áhrifin mundu koma út með allt öðrum hætti hér. Þó að hér sé vissulega rekin blómleg útgerð eru áhrifin á þetta svæði á suðvesturhorninu allt önnur en á þau svæði landsins þar sem sjávarútvegurinn er uppistaða í atvinnumálum.