140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann — sem fór ágætlega yfir frumvarpið út frá lögfræðinni og gegnsæi í skattheimtu og allt það, sem var mjög athyglisvert að hlusta á, en ræddi lítið um breytingartillögurnar sem hér eru settar fram — hvort hann sé ekki á sömu skoðun og ýmsir samherjar hans í pólitík í Sjálfstæðisflokknum. Það hefur komið fram að ýmsar þær breytingartillögur séu sérstaklega til bóta, til dæmis ívilnun til skuldsettra fyrirtækja með mikinn vaxtakostnað vegna kvótakaupa undanfarin ár.

Hitt atriðið sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í — vegna þess að bæði formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafa sagt í þessum ræðustóli nýlega að þeir séu báðir sammála því að hækka veiðigjald á Íslandi af sjávarútvegi. Og kennitölurnar eru þessar fyrir síðasta ár: 250 milljarðar í tekjur, 175 í gjöld, framlegðin er 75 milljarðar kr. Hvað telur þingmaðurinn að sanngjarnt veiðigjald væri af þessu? Ég minni á að almenna veiðigjaldið er 4,5–5 milljarðar kr., sem komið var á í tíð Sjálfstæðisflokksins, og sérstaka veiðigjaldið af þessari auðlindarentu er þá í kringum 10 milljarðar. Skiptingin á þessum 75 milljörðum yrði því 60 milljarðar til útgerðarinnar en 15 milljarðar til lýðveldisins Íslands, Íslendinga. Er þetta sanngjarnt eða er þetta ósanngjarnt? Ef honum finnst það ósanngjarnt, hver er talan þá að hans mati?