140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er eins og að segja: Maður er með hundraðþúsundkall. Hvort finnst þér að hann eigi að borga 15 þúsund, 20 þúsund eða 30 þúsund í skatt? (Gripið fram í: Svaraðu þessu.) Ég held að við séum í svona svipaðri stöðu.

Ég ætla ekki að láta hv. þingmann svara þessu. Ég held hins vegar að (KLM: Ég, þú átt að svara þessu.) — ég og hv. þingmaður gætum alveg sest niður og fundið út úr því, ég held að við gætum gert það með hjálp góðra sérfræðinga. En ég held og það sýnist mér á mati þeirra sem um þetta hafa fjallað og hafa meira vit á rekstrar- og hagfræðilegum þáttum en ég, svo til ef ekki öllum þeim sérfræðingum sem um þetta mál hafa fjallað, að þarna sé allt of langt gengið. (Gripið fram í: En breytingarnar?) Og þó að menn viti ekki nákvæmlega — breytingarnar, jú, ég get tekið undir það, sennilega væru breytingarnar til bóta. En ég spyr hv. þingmann: Hver er sú faglega yfirferð yfir frumvarpið eftir breytingarnar sem við eigum að leggja til grundvallar okkar mati? (Forseti hringir.) Hafa sérfræðingar farið yfir frumvarpið? Hafa sérfræðingar lagt mat á breytingarnar og reiknað út áhrif þeirra?