Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 11:31:04 (12293)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau orð sem féllu hér í gær um mannlega lifandi skildi voru afar — ég veit eiginlega ekki hvernig á að orða það, þau pössuðu í það minnsta ekki inn í umræðuna og voru mjög óheppileg og í rauninni til vansa að þau skyldu vera notuð hér við þetta mál.

Eins verð ég að segja að þegar hv. þingmaður sem lét þau orð falla að fyrirtækjunum væri, fyrirgefðu orðbragðið, frú forseti, skítsama um sitt fólk er það að sjálfsögðu alrangt. Það fólk sem ég í það minnsta er í sambandi við og hitti einmitt á sjómannadaginn, upplifir það ekki þannig. Það upplifir hins vegar að atvinnuöryggi þess sé ógnað og finnur fyrir því.

Það eru fundir um allt land núna hjá fyrirtækjum, hjá starfsmönnum þessara fyrirtækja þar sem þeir koma saman tugum og hundruðum saman til þess að fara yfir þessi mál og senda ályktanir. (Gripið fram í.) Og það er ekki vegna þess að (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) þeir séu kúgaðir til þess, hæstv. utanríkisráðherra. Það er vegna þess að fólkið óttast að flokkur hæstv. utanríkisráðherra ætli að leggja niður störf þeirra.