Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 12:27:26 (12308)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa ágætu spurningu. Ég hef margoft komið hingað í pontu á þessu kjörtímabili og gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að kalla sig norræna velferðarstjórn og vísa til þess að verið sé að taka hér upp norræn vinnubrögð. Þar er auðvitað hefð fyrir minnihlutastjórnum en menn hafa notað það sem þeir hafa lært í minnihlutastjórninni þegar þeir eru í meiri hluta. Þegar gerðar eru róttækar breytingar í viðkvæmum málaflokkum eða stórar breytingar á stórum málum leita menn hjá öllum þessum vinaþjóðum okkar mjög gjarnan til mun stærri hóps, stjórnarandstöðunnar, og leita leiða til að í það minnsta verði 70–80% fylgi á bak við þær breytingar. Það þýðir um leið að breytingarnar verða ekki eins byltingarkenndar, minni átök verða um þær, meiri sátt og síðan er haft samráð við hagsmunaaðila sem málið varðar.

Það var auðvitað sláandi að fá svör allra þeirra sem komu fyrir nefndina við þeirri spurningu hvort haft hefði verið samráð við þá við gerð þessa frumvarps. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar lengi. Það var til sátta- og samráðsferli, ráðherraskipti hafa orðið og menn hafa verið með alls konar yfirlýsingar innan stjórnarflokkanna um ágæti þeirra mála sem þó hafa komið fram. Varðandi frumvarpið frá því í fyrravor sagði hæstv. utanríkisráðherra að það hefði verið bílslys. Svo kom annað frumvarp frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þáverandi ráðherra, í desember eða nóvember og um það hafði hæstv. forsætisráðherra mjög stór orð og því var hent. En staðreyndin er sú að við samningu þeirra tveggja frumvarpa sem við ræðum nú var ekkert samráð haft. Á þeim grunni er það markmið að ná sátt mjög sérkennilegt. Það bætist síðan við að breytingarnar eru byltingarkenndar og ekki er reynt (Forseti hringir.) að koma til móts við stjórnarandstöðuna áður en menn leggja af stað í slíkan leiðangur.