Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 15:12:44 (12315)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer ekkert á milli mála að veiðiskatturinn er skattur á landsbyggðina. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að langstærstur hluti útgerðarinnar fer fram utan höfuðborgarsvæðisins. Að vísu er það þannig, sem mér finnst nú stundum að fari fram hjá borgaryfirvöldum, að stærsta verstöð landsins er þrátt fyrir allt Reykjavík. Ég hef því verið undrandi á því lengi hve borgarfulltrúar í Reykjavík eru slakir í því að ræða stöðu sjávarútvegsins og benda á þýðingu þess að sjávarútvegurinn geti gengið á höfuðborgarsvæðinu eins og annars staðar á landinu.

Engu að síður er staðan sú að 85–90% af veiðiheimildunum eru á skipum sem gerð eru út á landsbyggðinni. Það gefur því augaleið að þegar tekin er um það pólitísk ákvörðun að taka umtalsverðan hluta af hagnaði fyrirtækja og í einhverjum tilvikum, örugglega hjá hinum skuldugri fyrirtækjum, meira en sem nemur öllum hagnaðinum þá er það auðvitað skattur á þessi landsbyggðarfyrirtæki. Og hvernig virkar hann? Það þýðir að þeim peningum verður ekki varið heima fyrir. Þeim verður þá varið einhvers staðar annars staðar. Við vitum líka að þegar einu sinni er búið að taka peningana inn í ríkissjóð þá skila þeir sér ekki nema að hluta til út á landsbyggðina. Það hafa margir fræðimenn bent á, eins og flokkssystkini hv. þingmanns hafa verið að draga fram í þessari umræðu. Þar má nefna Vífil Karlsson og Þórodd Bjarnason svo að ég taki dæmi af mönnum sem hafa verið að sýna fram á að mjög stór hluti af skattfé sem til verður á landsbyggðinni skilar sér ekki aftur til baka í starfsemi á landsbyggðinni.

Í öðru lagi varðandi sérhagsmuni og almannahagsmuni. Auðvitað eru það almannahagsmunir að standa vörð um það að sjávarútvegurinn á Íslandi gangi vel. Það getur ekki verið gott fyrir almannahagsmuni ef sjávarútvegurinn gengur illa. Við munum þá tíð þegar illa gekk í sjávarútvegi, þegar sjávarútvegurinn þurfti að lúta því að þurfa að þiggja fjármuni í gegnum alls konar sjóði til að geta haldið sér á floti. Menn sjá í hendi sér að það eru almannahagsmunir að sjávarútvegurinn gangi vel.