Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 16:18:42 (12327)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir ágæta ræðu um þetta mikilvæga mál. Þingmaðurinn kom í ræðu sinni inn á áhrif þessara fjármagnsflutninga. Það er alveg ljóst að þessi skattlagning, eins og ég vil kalla þetta, þýðir að heilmiklir fjármunir fara út úr greininni. Í sjávarútvegi hefur lítið verið fjárfest á síðustu þremur árum sérstaklega. Það er talið að árleg fjárfestingarþörf íslensks sjávarútvegs sé í kringum 20 milljarðar eða rúmlega það á ári. Fjárfestingar hafa verið á þessum árum í kringum 5 milljarðar. Það stafar fyrst og fremst af þeirri óvissu um fyrirhugaðar breytingar sem greinin hefur búið við frá því þessi ríkisstjórn tók við völdum.

Við sjáum núna hvaða hugmyndir menn hafa með þessu veiðigjaldi. Mig langar aðeins að velta því upp við hv. þingmann hvort þetta sé réttlætanlegt í raun og veru, hvort þetta muni ekki koma við fjárfestingarþörf sjávarútvegsins og hvort við séum ekki að taka fjármuni úr greininni sem ella færu í þær mikilvægu fjárfestingar sem auðvitað eru til þess gerðar að styrkja grunnatvinnuveg þjóðarinnar, skapa þar aukin verðmæti og fjölda starfa.

Þá kem ég inn á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim verkefnum sem fjármunirnir eiga meðal annars að fara í. Þar eru taldir upp sjóðir eins og Kvikmyndasjóður og Verkefnasjóður skapandi greina, verkefnið Netríkið Ísland fær 600 milljónir, grænar fjárfestingar 150 milljónir, grænn fjárfestingarsjóður 1 milljarð, grænkun fyrirtækja sem ég veit nú ekki hvað þýðir, er þar upp á 1,5 milljarða, vistvæn innkaup upp á 600 milljónir, orkuskipti í skipum upp á 600 milljónir. Þetta er allt gott og blessað. En eru þetta ekki verkefni, þegar fjármagnið er takmarkað, sem maður mundi ekki leyfa sér að fara í en leyfa frekar fjármununum að sitja eftir (Forseti hringir.) í þeirri mikilvægu fjárfestingu sem nauðsynleg er í þessari grunnatvinnugrein okkar?