Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 16:25:52 (12330)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er þetta gjald fyrir aðgang, er þetta skattur eða hvað er þetta? Ég er ekki sérfræðingur í skattalögum, alls ekki, en lögmannsstofan Lex hefur unnið álit sem lýtur að þessu og í því áliti segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þannig gefur augaleið að í frumvarpinu er gengið út frá því að veiðigjöldin séu skattur í stjórnskipulegum skilningi. Er það mat undirritaðra að veiðigjöldin svo sem þau eru ráðgerð í frumvarpinu séu skattur í lagalegum skilningi, en með skatti er átt við greiðslu sem hið opinbera hefur með einhliða ákvörðun knúið tiltekinn hóp einstaklinga eða lögaðila til að greiða án sérgreinds endurgjalds frá hinu opinbera.“

Það er að minnsta kosti álit þessarar lögmannsstofu að þetta sé skattur. Ég veit ekki hvort þetta sé svo rosalega stórt atriði í mínum huga. Hins vegar getur það hvort þetta er skattur ekki haft mikið að segja til dæmis upp á stjórnarskrána og hvernig menn leggja á skatta, afturvirkni skatta o.s.frv. En fyrir mér er stóra málið það að verið er að taka fjármagn, hvort sem það er með skatti eða gjaldi, út úr ákveðinni atvinnugrein. Það er gert í dag en nú er verið að hækka þetta gjald svo mikið að ég held að þetta verði þungt högg. Ég er eiginlega sannfærð um það að þetta verður of þungt högg fyrir þessi fyrirtæki til frambúðar og of íþyngjandi fyrir landsbyggðina.

Það skal samt halda því til haga að þetta gjald á að sveiflast með afkomu. Það er jákvætt, en ég held þetta sé samt of hátt.

Ég vil því ítreka það sem ég sagði í ræðu minni. Ég tel að það sé glapræði að klára þetta mál án þess að fá umsagnir sérfræðinga um þær breytingartillögur sem liggja fyrir. Það má ekki klára málið eins og það liggur fyrir núna nema við vitum meira um afleiðingarnar.