Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 16:57:45 (12337)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:57]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson vék að mörgum athyglisverðum atriðum í ræðu sinni. Hann fjallaði til að mynda um mikilvægi þess að jafna aðstöðumun fólks sem byggi á landsbyggðinni, byggi í dreifbýlinu um allt land, hvað varðar orkuna og flutningskostnaðinn, sem er einn hæsti skattur sem er á landsbyggðinni umfram það sem gengur og gerist annars staðar í landinu og er mjög kostnaðarsamur þáttur fyrir öll heimili á landsbyggðinni, bæði í sjávarplássum og í sveitum. Þess vegna skýtur það skökku við þegar hæstv. ríkisstjórn Íslands ætlar sér síðan enn að bæta á þá mismunun með því að skapa ringulreið, upplausn og tap á tekjum og atvinnumöguleikum fólks í öllum plássum landsins.

Það er náttúrlega ekkert réttlæti í því að taka af einum og setja til hins. Það kann að vera að stundum þurfi að flæða á milli að einhverju leyti, en það er ekkert verið að tala um það í þeim frumvörpum sem hér er verið að véla um. Verið er að tala um að hirða af einum og hlaða á hinn sem hefur kannski ekki þörf fyrir það. Það á að taka úr einni byggð sem nemur 60 húsum og byggja svo 60 í annarri sem er ekki þörf fyrir. Þetta er línan.

Mig langar að spyrja hv. þingmann frekar um þessi atriði sem hann vakti máls á.