Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 17:02:01 (12339)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:02]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt komið nóg. Ef menn brjóta til mergjar um hvað málið snýst — hvað er landsbyggðin í landinu? Landsbyggðin er fyrst og fremst vinnumenn í þágu höfuðborgarsvæðisins vegna þess að frá landsbyggðinni streymir gullið sem borgarvelferðarkerfið á Íslandi nýtur. Þar hefur höfuðborgarsvæðið mikið forskot er lýtur að heilbrigðisþjónustu, menntun, menningarlífi og öðrum þáttum. Af hverju ætti höfuðborgarsvæðið að vilja klekkja á vinnumönnum sínum sem eru að byggja og styrkja grundvöll þess sjálfs? Útvegurinn skilar stórum hluta af arðseminni þar.

Einnig er ástæða til að benda á annað. Menn eru alltaf að tala um tekjurnar. Það er eins og ekkert sé í sjávarútveginum nema tekjur. Það er fróðlegt að vita hvað kostaði að fylla tankana á nýjasta skipi Íslendinga, Heimaey VE 1. Það kostaði 80 millj. kr. að fylla tankana. Ekki eru það tekjur. (BJJ: Fyrir ríkið.) Já, já, ríkið hefur góðar tekjur en það eru ekki tekjur fyrir útgerðina. (Gripið fram í: Nei.) Nei. Þetta er ótrúlegt í rauninni að það kosti 80 milljónir að fylla tanka eins skips. Það getur siglt að vísu alllanga leið, en tankaáfyllingin kostaði 80 milljónir.

Þetta er auðvitað atriði sem þarf að fara í saumana á. Menn verða að taka allt til greina. Það er það sem ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að benda á í ræðu sinni.