Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 17:04:14 (12340)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Að fylla Heimaey af eldsneyti skilar trúlega ríkinu um tugum milljóna kr. vegna þess að ríkisstjórnin hefur stórhækkað álögur á eldsneyti og þar með á atvinnulíf og heimili landsins svo um munar.

Við hv. þingmaður erum sammála held ég í grundvallaratriðum um nálgunina á þessu máli. Við eigum fleiri stuðningsmenn. Við eigum til að mynda stuðningsmann í hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem var þingmaður Alþýðubandalagsins og sagði á fundi á Akureyri árið 1997, með leyfi frú forseta:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar.“

Áfram heldur, með leyfi frú forseta:

„Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Þetta er nákvæmlega sá málflutningur sem við hv. þm. Árni Johnsen höfum viðhaft hér í þessu máli. Það sérkennilega er að það er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem leggur fram þetta frumvarp um að skattleggja sjávarútveginn og sjávarbyggðirnar um marga milljarða kr. til viðbótar án þess að mikið komi til baka í formi annarrar atvinnuuppbyggingar eða nýsköpunar. Þetta er kannski talandi dæmi um stjórnmálaflokkinn Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Svo virðist sem stefnumál þess flokks sem talað var um í aðdraganda síðustu kosninga séu komin upp í andhverfu sína. Við sjáum það líka í ljósi þess að hv. þm. Jón Bjarnason hefur komið hingað upp og deilt mjög hart á það frumvarp sem við ræðum. Það er því alls óvíst hvort meiri hluti er á bak við þetta mál, enda er það svo vanbúið og vanreifað að það væri öllum fyrir bestu að það yrði dregið til baka og menn settust betur yfir það og mundu reyna í alvöru að ná einhverri sátt um íslenskan sjávarútveg.