Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 17:09:50 (12344)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Reyndar hafði virðulegur forseti ekki lokið kynningunni þannig að það eru áhöld um það hvort ekki hefði verið rétt að hleypa hv. þingmönnum að með athugasemdir sínar. En látum það vera.

Ég hef í fyrri ræðum mínum í fyrsta lagi rætt þann hugmyndafræðilega grunn sem ég tel að málið snúist um. Ég hef einnig rætt þær afleiðingar sem ég tel að þetta gjald muni hafa á byggðaþróun og um leið hver staða landsbyggðarinnar er og hvernig hún hefur þróast í takti við minni þorskafla og hvernig byggðaþróunin hefur goldið fyrir það eða orðið fyrir höggi vegna þess að minni þorskafli berst að landi en áður.

Í þessari ræðu minni, virðulegi forseti, vil ég einkum ræða eftirfarandi atriði: (Gripið fram í.) Við hvað er átt með þeirri fullyrðingu að þjóðin njóti einungis arðs af þessari auðlind ef slíkt gjald verður tekið upp, eins og lagt er til í þessu frumvarpi? Ég tel að hér sé um mikla hugsanavillu að ræða. Það hefur komið fram hjá fjölmörgum hv. þingmönnum stjórnarliðsins að nú hilli loks undir það að þjóðin fái í einhverju notið arðs af þessari auðlind. Þetta tel ég mikil öfugmæli. Þetta eru öfugmæli vegna þess að að sjálfsögðu hefur þjóðin notið mikils arðs af því fiskveiðistjórnarkerfi sem búið hefur verið til og unnið hefur verið eftir og byggir auðvitað á því að það eru mikil verðmæti fólgin í hafinu umhverfis Ísland. Fiskimiðin hér eru mjög gjöful og verðmæt. En það skiptir máli hvernig þau eru nýtt, hvaða stjórnkerfi er utan um fiskveiðarnar. Ég hef áður rakið hvaða alvarlegu afleiðingar það hefur fyrir auðmyndun í landinu ef stjórnkerfi fiskveiða er til þess fallið að auka sóknarkostnað og jafnvel draga úr verðmæti þess afla sem dreginn er úr sjó, t.d. með því að sótt er undir formerkjum svokallaðra ólympískra veiða þar sem allt kapp er lagt á sem hraðasta veiði eða að veiða sem mest í einu en minna gætt að aflameðferð o.s.frv.

Þetta gerist þannig, virðulegur forseti, að afrakstur veiðanna, auðurinn, rennur annars vegar til þess að fjárfesta í tækni svo halda megi áfram að lækka framleiðslukostnaðinn og auka verðmætin, og hins vegar fer hann út úr greininni og inn í aðrar atvinnugreinar. Það er einmitt þannig sem þjóðin nýtur arðs af auðlind sinni, þ.e. hún verður verðmætari og verðmætari eftir sem tækninni fleygir fram og fjárfesting í samfélaginu eykst. Hún eykst vegna þess að það verða til fjármunir við nýtingu auðlindarinnar. Einhvers staðar verða fjármunirnir að koma frá.

Ef við viljum ekki að einungis erlendir aðilar fjárfesti hér á Íslandi verðum við að horfa til þess að í grundvallaratvinnurekstri okkar verði til fjármunir sem hægt er að nota til fjárfestinga. Við skulum muna það, virðulegi forseti, þegar við notum orðið fjárfesting í atvinnulífinu erum við í raun og veru að tala um atvinnu og atvinnutækifæri. Við erum líka að tala um fjölbreytileika vegna þess að með því að margir taki ákvarðanir um fjárfestingar en ekki fáir eru það hinir mörgu sem sjá fjölbreytt tækifæri. Það er enginn einn sem býr yfir þekkingu á öllum mögulegum fjárfestingarkostum. Það er þess vegna miklu líklegra að samfélag sem felur einstaklingum að fjárfesta frekar en ríkisvaldinu og stjórnmálamönnunum, sé fjölbreytilegt og bjóði upp á tækifæri fyrir þegna sína til að finna kröftum sínum viðnám. Þetta er mjög mikilvægt og nauðsynlegt að hafa hugfast þegar hv. þingmenn stjórnarinnar segja að nú fyrst hilli undir það að þjóðin fái í einhverju notið arðs af þessari auðlind.

Rétt er að hafa það líka í huga, virðulegi forseti, að hér á árum áður runnu fjármunir úr sameiginlegum sjóðum inn í þessa atvinnugrein. Það skiptir máli í þessu sambandi.

Hvað varðar síðan þá fullyrðingu sem fram hefur komið í umræðunni að það fyrirkomulag sem lagt er til með þessa gjaldheimtu sé þannig úr garði gert að það skerði ekki laun sjómanna eða annarra, verð ég að mótmæla þeirri fullyrðingu. Vissulega er það rétt að reiknireglan sem sett er fram er hugsuð þannig að búið sé að draga frá laun áður en kemur að ákvörðun gjaldsins. En — og þetta er mikilvægt og skiptir heilmiklu máli að gera sér grein fyrir — með því að arðsemin lækkar, með því að dregið er úr arðseminni, minnka möguleikar greinarinnar sem því nemur til þess að fjárfesta, til þess að hækka tæknistig sitt, til þess að standa sig (Utanrrh.: Fækka þannig sjómönnum.) í samkeppni við annan sjávarútveg. Hér kallar hæstv. utanríkisráðherra fram í: Og fækka þannig sjómönnum. Það er alveg hárrétt. Eftir því sem tækninni fleygir fram hefur fækkað þeim sem vinna í þessari atvinnugrein. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt (Forseti hringir.) en hefur líka leitt til þess …

(Forseti (ÁI): Hæstv. ráðherra á þess kost að fara í andsvar við ræðumann (Gripið fram í.) og hvet ég hann til þess ef hann vill leggja eitthvað til mála.)

Nú rýkur tíminn út, virðulegi forseti. Ég vildi hafa sagt þetta. Það er hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að þeim fækkar. En það sem gerist á móti er að verðmætin aukast. Laun þeirra sem starfa í greininni hafa verið að hækka, laun sjómanna hafa hækkað vegna þess að það er meiri arður og það er meiri fjárfesting, það er meiri vélvæðing. Þannig hefur þetta verið að ganga fyrir sig síðustu áratugina.

Ekki vænti ég þess að hæstv. utanríkisráðherra sé þeirrar skoðunar að betra sé að við reynum að fjölga eins og við getum sjómönnum. (Utanrrh.: Nei …) Ég hef alla tíð verið sannfærður um það að í hjarta sínu sé hæstv. utanríkisráðherra mér mjög sammála um að eitthvað það alvitlausasta sem við höfum gert á þessu þingi, og er nú margt vitlaust gert, var að taka upp fyrirkomulag strandveiða. Það byggði einmitt á þeirri hugmynd sem hæstv. ráðherra var að nefna, að fjölga þeim sem sækja sjóinn, minnka það sem hver og einn ber úr býtum og þar með draga úr auðmyndun Íslands. Það er ekki tilgangurinn með fiskveiðistjórnarkerfinu heldur eigum við þvert á móti að koma þessum hlutum þannig fyrir að auðmyndun sé sem mest, þá er mest til skiptanna.

Ef sjávarútvegurinn getur ekki haldið áfram að fjárfesta eins og hann hefur verið að gera í vinnslu- og veiðitækni, gerist tvennt. Annars vegar dregur úr umsvifum þeirra stoðfyrirtækja, sem hafa verið að starfa í kringum sjávarútveginn og notið góðs af því að okkur hefur tekist að búa til umhverfi utan um sjávarútveginn sem gerir það að verkum að hann skapar meiri auð en áður. Hluti af þeim auði hefur runnið til þessara fyrirtækja og upp hafa sprottið mjög öflug tæknifyrirtæki sem selja núna þjónustu ekki bara til sjávarútvegsins heldur til annarra atvinnugreina, ekki bara hér á Íslandi heldur út um allan heim.

Þess vegna hafa Samtök iðnaðarins varað sérstaklega við þessari gjaldtöku, af því að á þeim bæ gera menn sér ljóslega grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefur ef verið er að vængstýfa sjávarútveginn.

Nauðsynlegt er líka að hafa í huga þegar talað er um að þjóðin fái notið afrakstursins af auðlind sinni, að ef gengið er eins nærri sjávarútveginum og lagt er til með veiðileyfagjaldsfrumvarpinu og þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins sem munu stórskaða getu hans, mun það bara leiða til eins. Samkeppnisstaðan versnar. Og hvað þýðir það, virðulegi forseti? Hæstv. utanríkisráðherra ætti að hafa áhyggjur af því, vegna þess að það þýðir að gengi íslensku krónunnar mun veikjast. Ef samkeppnisstaða sjávarútvegsins veikist gagnvart öðrum greinum og við sjávarútveg annarra landa og í samkeppni við önnur matvæli kemur það niður á gengi íslensku krónunnar. Þetta er mjög þekkt, virðulegi forseti, og þetta veit hæstv. utanríkisráðherra sennilega betur en ég. (PHB: Eða gjaldþrot.)

Síðan er það auðvitað kapítuli út af fyrir sig, ef svo fer eins og lagt er nú upp með og helstu sérfræðingar sem skoðað hafa þetta mál hafa bent á — og það er rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar hér fram í — að ef gengið er svo hart fram að það dugar ekki til gengisfellingar, endar það með gjaldþrotum sem lenda síðan auðvitað á bankastofnunum og þeim sem hafa lánað slíkum fyrirtækjum birgðir og fjármuni.

Allt ber að einu. Menn verða að vanda sig við þessa framkvæmd alla. Menn verða að vanda sig við þessa lagasetningu. Ég er sannfærður um að hv. þm. Kristján Möller vill allt hið besta í þessu máli, en honum hafa bara verið sett slík vinnuskilyrði, m.a. vegna þess að það frumvarp sem hér er lagt fram er svo arfavitlaust, að það er ógerningur að leiðrétta þetta á einhverjum handahlaupum í þinginu á örfáum dögum, það má ljóst vera.