Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 17:22:28 (12346)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég játa að ég hafði ekki séð þessa yfirlýsingu í Morgunblaðinu. Ég er að sjá hana fyrst núna. Ég hef aftur á móti séð þær umsagnir sem streymt hafa til þingsins frá sveitarstjórnum víðs vegar um landið þar sem þær áhyggjur sem hér er lýst og var lýst af hv. þingmanni koma mjög skýrt fram. Það gefur mér tilefni til að velta einu upp, af því að augljóslega er ég sammála því sem hér er bent á, og það er hvernig orðræðan í þessari umræðu hefur þróast. Til dæmis er talað um að þeir hv. þingmenn sem eru á móti þessu frumvarpi séu í einhvers konar hagsmunagæslu og láti sig engu varða almannahagsmuni í þessu máli.

Ég held að þeir sem leyfa sér að tala þannig, virðulegi forseti, ættu einmitt að velta því fyrir sér hvort það sé virkilega svo að allt þetta góða fólk sem setur nöfnin sín undir slíka yfirlýsingu og allir þeir einstaklingar sem sendu hingað umsagnir um þessi mál séu einhvers konar handbendi sérhagsmuna? Ætli þessu sé ekki öðruvísi farið? Ætli það sé ekki einmitt þannig að þeir sem gleggst til þekkja og láta sig þessa atvinnugrein varða sjá nákvæmlega hvað hér er að gerast og vilja grípa til varna? Þeir vilja koma í veg fyrir að þetta nái fram að ganga vegna þess að þegar upp verður staðið mun þetta skaða almannahagsmuni.

Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi og þær breytingar sem fólgnar eru í því frumvarpi sem snýr að fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu eru til þess fallnar að gera Ísland að fátækara landi en þyrfti að vera. Þær innihalda sóun og tilfærslu fjármuna úr atvinnulífinu inn í ríkissjóð með þeim hætti að það mun leiða til lakari lífskjara fólksins í landinu þegar upp verður staðið. Það heitir að verja almannahagsmuni gegn ásælni frekra stjórnmálamanna sem vilja ná sér í peninga til þess að eyða sjálfir.