Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 19:03:24 (12371)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:03]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það mætti nú svara þessu í löngu máli en til þess hef ég skamman tíma. Í fyrsta lagi þá er staða mín algjörlega ljós. Ég hef um margra ára skeið verið lögfræðingur Alþýðusambands Íslands en er í launalausu leyfi. Ég er ekki þingmaður Alþýðusambands Íslands, ég er þingmaður Samfylkingarinnar, frjáls og sjálfstæður einstaklingur. Það hefur ekki áhrif á störf mín hér þó að ég deili hugsjónum verkalýðshreyfingarinnar í mínu daglega lífi, hvar svo sem ég er, í flestum málum en alls ekki öllu, langt frá því.

En hvað varðar eignarréttinn þá rökstuddi ég það vel að þessi deila snýst í kjarnann ekki um einkaeignarréttinn vegna eðlis auðlindarinnar og vegna þess að þó að þú nýtir eitthvað þá verður þú ekki eigandi þess. Þó að þú farir reglulega á rjúpnaskytterí uppi á Holtavörðuheiði þá verður þú ekki eigandi Holtavörðuheiðar. Þú getur hugsanlega eignast óbein eignarréttindi sem veiðimaður, jú, jú, vissulega, það þarf að stýra því, en þú verður aldrei eigandi að Holtavörðuheiði og um það var mín ræða. Hún er ekki um það að einkaeignarrétturinn sé úreltur, langt því frá, ég er jafnaðarmaður.