Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 19:05:48 (12373)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:05]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er þannig að lífeyrisréttindi okkar mynda einhvers konar eignarrétt. Þau mynda hins vegar ekki tilkall til tiltekinnar afmarkaðrar fjárhæðar sem liggur einhvers staðar í sjóði. Þau skapa okkur réttindi sem við eigum í þeim sjóði sem þýðir að ég get ekki farið inn í lífeyrissjóð og tekið út úr honum eins og úr banka. Þetta vitum við báðir. Þarna verða til einkaeignarréttindi, alveg klárlega, það er minn lífeyrisréttur.

Sá réttur verður ekki af mér tekinn án þess að það varði við stjórnarskrá og þess vegna er ég mjög á móti því að Alþingi sé að fikra sig inn í almennu lífeyrissjóðina til þess að greiða niður skuldir einhverra sem tapað hafa í hruninu, það er bara ekki rétt aðferð. Þú tekur ekki eign frá öðrum til að greiða það niður sem illa hefur farið. Auðvitað er lífeyrir því háður einkaeignarrétti.

En þetta er ansi flókin spurning sem hv. þingmaður ber fram og ekki er hægt að svara henni á einni mínútu en kannski getum við átt góðar viðræður um hana síðar.