Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 19:09:37 (12376)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mjög margir hafa varað við afleiðingum þessa frumvarps og einnig hins frumvarpsins um stjórn fiskveiða og mér finnst það heldur ódýrt ef afgreiða á alla þá gagnrýni sem fram hefur verið sett með því að menn séu í raun launaðir fótgönguliðar þeirra sem stýra stærstu útgerðarfyrirtækjunum, ef það er það sem hv. þingmaður á við.

Ég bendi bara á afstöðu sérfræðinga á svið hagfræði, sem um þetta mál hafa fjallað. Hefur fundist sá óháði hagfræðingur sem mælt hefur með þeirri leið sem lögð er til í þessum frumvörpum? Hvar liggja fyrir sjónarmið þeirra lögfræðinga sem telja að hér sé vel að verki staðið? Hver eru sjónarmiðin varðandi þá lögfræðilegu gagnrýni sem komið hefur fram á frumvörpin út frá stjórnskipulegum sjónarmiðum? (Forseti hringir.) Við erum að tala um afturvirkni laga, framsal á skattlagningarvaldi o.s.frv.