Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 19:10:51 (12377)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:10]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé einmitt þannig að þegar einstaklingar, fyrirtæki eða sérfræðingar senda inn umsagnir þá ber að lesa þær af mikilli virðingu og ég er ekki að gefa í skyn að menn skrifi eitthvað sem er rangt. En þú ert að varpa ljósi á einhverja þá hagsmuni sem skipta umbjóðanda þinn máli, það gerum við sem lögmenn, hagfræðingar og annað.

Við eigum bara að hlusta á það og taka það alvarlega, ég er sammála hv. þingmanni um það, og ég tel að það sé verið að gera. Menn geta sagt eitthvað annað hér í pontu en menn vita það sem hér sitja að það er verið að vinna í þessum málum baki brotnu hér í þinghúsinu og í öðrum húsum.

Óháðir hagfræðingar — auðvitað eru þeir til en ég held ég muni það rétt að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra okkar góða lands í langan tíma sé einn af þeim sem ekki hafa gefið mikið fyrir það að til séu slíkir óháðir einstaklingar. Maður verður alltaf að lesa alla hluti af gagnrýni, því er ég sammála.