Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 19:17:03 (12382)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu, það voru góðir og skemmtilegir sprettir í henni. Þingmaðurinn réðst í það verk að skilgreina það fiskveiðistjórnarkerfi sem við ættum að búa við út frá því sem hann kallaði í raun hugmyndafræðileg slagorð jafnaðarmanna; frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Þessi orð, sem eiga rætur sínar í frönsku byltingunni, eru fögur orð en er þingmaðurinn ekki þeirrar skoðunar að það hafi jafnvel gleymst í skilgreiningum hans að gera grein fyrir því hvers vegna við erum með þetta kerfi, þetta kerfi einkaréttinda? Það er til þess að það myndist auðlindarenta í greininni, en slagorðin hans leiða öll til þess að (Forseti hringir.) leiða inn óhagkvæmni í greinina og að auðlindarentunni verði (Forseti hringir.) verði fórnað á altari óhagkvæmninnar.