140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það gengur á ýmsu í umræðum um þetta mál og ég hefði viljað hvetja alla sem að þessu koma til að stilla skap sitt, forseta líka til að íhuga hvort ekki geti verið ástæða til að slá botn í þennan þingfund sem nú hefur staðið ærið lengi. Ég hefði talið að allir sem taka þátt í og fylgjast með þessum umræðum hefðu gott af hvíld í nótt til að róa sig niður þannig að við getum tekið málefnalega umræðu um þau álitaefni sem uppi er.

Ef eitthvað skortir sárlega í þessu máli þá er það rökleg umræða á grundvelli skilmerkilegra og hnitmiðaðra upplýsinga frá atvinnuveganefnd þingsins varðandi það frumvarp sem liggur fyrir. Sú umræða þyrfti að lúta að breytingum sem hafa verið gerðar við vinnslu málsins í nefndinni, hvaða breytingar stendur til að gera, og síðast en ekki síst þarf að leggja fram rökstuðning fyrir því hvers vegna þær breytingar eru gerðar.

Einnig skortir upplýsingar um áhrifin af frumvarpinu á ýmsa þætti málsins og ... [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÞBack): Forseti biður um einn fund í salnum, [Kliður í þingsal.] biður hv. þingmenn um að víkja úr salnum og í hliðarsal, einn fund í salnum. [Kliður í þingsal.] Forseti biður hv. þingmenn um að vera í hliðarsal, gefa ræðumanni hljóð.)

Ég hvet forseta til að beita valdi sínu til að reyna að stilla til friðar í þinginu og skora á hæstv. forseta að ganga til þess verks, annaðhvort með því að stöðva mig í ræðu eða þegar henni lýkur. Ég tel það bráðnauðsynlegt í ljósi þeirrar umræðu og þeirra atvika sem hér hafa orðið.

Ég vil ræða það hvers vegna málið er komið í þann hnút sem það virðist vera í. Ég kenni að stærstum hluta um þeirri umræðuhefð sem skapast hefur, sérstaklega af hálfu annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, svo að ég segi það hreint út, um þessa atvinnugrein. Það birtist ágætlega í þeirri orðræðu sem hv. þm. Skúli Helgason hóf hér í gær og jafnframt tók hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir undir á mjög svipuðum nótum. Það er að minni hyggju orðfæri og umræða sem ekki er á nokkurn hátt boðleg þinginu, þegar við ræðum jafnviðamikið mál og hér um ræðir, þegar hv. þingmenn eru beinlínis farnir að tala illa um fólk eða heilar starfsstéttir.

Þegar gefið er í skyn og dregið saman í eina staðhæfingu að heil starfsstétt manna beri tiltekinn hug til annarra hópa samfélagsins þá álít ég að þar sé á ferð mikil heimska ef ekki fáfræði, og þá þeirra sem ráðast að sjómönnum þessa lands og fiskverkafólki með brigslyrðum um undirlægjuhátt og þrælsótta og jafnvel fábjánaskap. Það er ekki boðlegt af hv. þingmönnum að tala þannig um þá einstaklinga sem starfa í þessari atvinnugrein. Allt tal um það að þessar starfsstéttir láti smala sér er niðrandi og það er fáránlegt. Við því er ekkert annað að segja en: Margur heldur mig sig. Það væri óskandi að hægt væri að koma umræðum um sjávarútvegsmálin upp úr þessum farvegi en þegar menn standa rökþrota hentar að hjóla á þann hátt í tiltekna hópa fólks.

Það er lenska og hefur lengi verið þjóðaríþrótt að hæðast að þingmönnum og Alþingi, og raunar háttar svo til um þessar mundir að sú stofnun er rúin trausti. Kannski má fyrst og fremst rekja það til þessa háttalags og það kann vel að vera að sá sé tilgangurinn með þeirri orðræðu sem haldið er uppi að skapa sem mesta óeiningu um þá stofnun sem ég tel tvímælalaust að allir hv. þingmenn eigi að bera mikla virðingu fyrir.

Ekki er langt síðan útrásarvíkingar og athafnamenn voru aðalskotspónninn, skíthælar Íslands, ásamt einstaklingum sem störfuðu í verðbréfaviðskiptum og bankafólki almennt. Ég er ekki hrifinn af því að tala þannig um starfsstéttir. En nú upplifum við það að stjórnmálamenn og sérskipaðir álitsgjafar stunda það unnvörpum að úthúða útgerðarmönnum fyrir þá óhæfu eina að græða á fiskveiðum. Jafnframt er hásetum til borðs í fiskiskipum landsmanna, hvort heldur þau eru stór eða smá, úthúðað fyrir að harma hlutinn sinn. Ég tel þvert á móti að það fólk sem í þessari grein starfar hafi fullan rétt til að bera hönd fyrir höfuð sér. Það á að mæta athugasemdum þeirra málefnalega en ekki á þann hátt sem vart telst boðlegur, að ausa svívirðingum yfir heilu starfsstéttirnar í skjóli pólitísks rétttrúnaðar eftir ákveðinni forskrift sem er gefin.

Við gætum haldið lengi áfram á þessum nótum og tekið fyrir þá umræðuhefð sem innleidd hefur verið varðandi ýmsar starfsstéttir. Við getum tekið umræðuna um fjölmiðlafólk almennt, háskólasamfélagið sem á að hafa brugðist í aðdraganda hrunsins. Er hægt að draga samasemmerki yfir allt háskólasamfélagið þó að tilteknir einstaklingar þar hafi brugðist? Er hægt að setja eitthvert samasemmerki á milli framgöngu einstakra fjölmiðlamanna og allra fjölmiðla?

Alhæfingarnar eru slíkar í íslensku samfélagi að halda mætti að allt væri á leiðinni lóðbeint niður í það allra svartasta. Hv. alþingismenn sem tala með þessum hætti ættu að fara að gera það upp við sig hvort yfir höfuð sé einhver nýtileg stétt eða starfsgrein í landinu sem hægt er að reiða sig á. Tæpast eru það prestarnir. Sennilega eru ljósmæður best liðna og best umtalaða stétt landsins og ég tek með mikilli ánægju undir sjónarmið þeirra sem hæla ljósmæðrum landsins.

Þessarar umræðu sá líka stað í ræðum annarra hv. þingmanna Samfylkingarinnar en hv. þingmanna Skúla Helgasonar og Ólínu Þorvarðardóttur. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hélt ræðu í gær um það frumvarp sem liggur fyrir. Þar var sleginn sami tónn, þ.e. að ástæðan fyrir því að það lægi fyrir væri fyrst og fremst sú að útgerðarmenn rökuðu gróðanum saman og nauðsynlegt væri í þágu þjóðarinnar, eins og þar var sagt, að leggja á veiðileyfaskatt og það sem hæstan og deila honum síðan út af stjórnmálamönnum til þeirra sem mest væru þurfandi, en þó þannig að þjóðin sem ætti þennan arð skilið ætti ekki að njóta hans alls.

Í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar kom fram að höfuðborgarsvæðið ætti ekki að fá krónu heldur fyrst og fremst þau samfélög sem byggðu á útgerðinni. Þá má spyrja: Hvað á þá að gera við þau sveitarfélög vítt um land sem hafa enga útgerð? Eru þau þá ekki þjóðin? Hvar ætla menn að stoppa við? Hvers lags umræða er þetta? Hvers lags framsetning er á þessu máli og umgengni við það fólk sem hefur kosið sér þetta starf og gert það að ævistarfi sínu? Ég tel það virðingarleysi við heilar starfsgreinar — ekki bara sjómenn, fiskverkafólk eða útgerðarmenn heldur einnig við þá einstaklinga og hópa sem hafa lifibrauð af því að þjónusta þessa atvinnugrein og við byggðir landsins — að leggja ekki jafnhliða svona stórum breytingum fram úttekt á áhrifum frumvarpsins.

Engin gögn hafa verið lögð fram eða útreikningar sem styðja þá fjárhæð sem um er rætt í veiðileyfagjaldi, sem á að vera einhvers staðar um 15 milljarðar kr., engir formlegir útreikningar, engin formleg gögn. Enginn veit hver áhrifin verða á sjávarútveginn í heild. Enginn veit hver áhrif af frumvarpinu verða á einstök byggðarlög eða landsvæði, hvað þá heldur á einstakar útgerðir eða útgerðarflokka. Telja menn þetta boðlegt? Telja menn það boðlegt að svara allri þeirri gagnrýni sem fram hefur komið í þessu máli á þann veg að reyna að stilla mönnum upp og draga þá í dilka og segja að sá sem lendir í þessum dilk sé ekki svara verður? Ég tel að þeir aðilar sem hafa gert athugasemd við þetta eigi réttmæta kröfu á því að þeim sé svarað með útreikningum og greinargerðum um áhrif þessa mikla frumvarps á afkomu þeirra og lifibrauð.

Það kann vel að vera að einhverjum þyki það ósanngjörn krafa. Þá segi ég og spyr: Hvers vegna vilja menn ekki taka saman greinargerð sem felur í sér svör við þessum spurningum? Slík greinargerð mundi fyrst og fremst nýtast til að deiluaðilar átti sig á því um hvað ágreiningurinn er og greina þá hismið frá kjarnanum í áróðri stríðandi fylkinga. Við heyrum það frá þeim sem eiga mikið undir því að útgerðin gangi, lánastofnunum, sveitarfélögum, útgerðarmönnum og eigendum útgerða og fiskvinnslustöðva tengdra fyrirtækjum — í ræðu og riti og meðal annars í umsögnum sem hafa borist — að verði frumvarpið að lögum óbreytt verði það til að drepa viðkomandi starfsgrein eða viðkomandi fyrirtæki, leiða það í þrot. Á móti þessu er því haldið fram af hálfu talsmanna frumvarpsins að viðkomandi útvegsmenn, útgerðarfyrirtæki, græði svo óskaplega að þeir geti bara borgað og muni ekki fara í þrot. Það er algerlega útilokað fyrir almenna borgara þessa lands að átta sig á því um hvað þessi ágreiningur snýst. Þeim er hent á milli veggja í þessu og ég fullyrði að þeir einstaklingar eru teljandi á fingrum annarrar handar sem með einhverri vissu geta metið áhrifin af frumvarpinu á þá sem hér deila. Ég skal viðurkenna að mér þykir þetta ekki boðlegt og mjög miður að þannig sé unnið.

Fyrir liggur að það eina sem rekur þetta mál áfram í þeirri mynd sem reynt hefur verið síðustu þrjú ár — þetta er þriðja tilraunin sem gerð er — er haturspólitík út í eina tiltekna atvinnugrein og ástæðan fyrir því að ég tek svo sterkt til orða er sú að ekki er leitað málamiðlunar um aðra niðurstöðu en hér er barin niður og negld. Beinlínis er stofnað til úlfúðar og maður fær stundum á tilfinninguna að þetta sé fyrst og fremst gert til að sýna hverjir deila og drottna í þessu samfélagi. Orðfæri þeirra hv. þingmanna sem ég hef nefnt sérstaklega í gær, og raunar í störfum þingsins af hálfu eins hv. þingmanns í morgun, er slíkt að mér líkar það ekki. Mér misbýður sá hugarheimur sem það ber vott um og mér þykir mál að linni í þessari umræðu.

Ef maður tekur þær litlu röksemdir sem reynt er að draga saman í orðum og umræðu um þetta má helst skilja málið á þann veg að tilgangurinn sé sá að koma í veg fyrir að einstaka fyrirtæki í sjávarútvegi geti grætt meira en einhverja tiltekna fjárhæð sem ákveðin er af stjórnvöldum.

Í því sambandi vil ég nefna að hingað til hefur verið talað um þokkalegan gróða í olíuiðnaði veraldarinnar. Hvernig skyldi þetta frumvarp standa í þeim samanburði? Í skattalögum og skattareglum fyrir olíuvinnslu á Íslandi, í tiltölulega nýsamþykktum lögum, er hámark á skatti 65%. Það frumvarp sem hér liggur fyrir um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar gerir ráð fyrir því að þegar það verður fullnustað sé skatthlutfallið 70%, 5 prósentustigum hærra skatthlutfall á íslenskan sjávarútveg en olíuframleiðslu þegar hún verður komin á fullt gas.

Menn hafa mikla trú á þessu og enn meiri trú á sjálfum sér sem stjórnmálamönnum og skömmturum ef þeir ætla að telja þeim sem í greininni starfa og þeim sem á henni lifa trú um að stjórnmálamenn séu betur færir um að búa til jöfnuð með því að innkalla kvóta og aflaheimildir frá tilteknum stöðum vítt og breitt um landið og drita því svo þvers og kruss um landið — búa þannig til einhvern stjórnmálalegan jöfnuð fyrir landslýð. Þetta er algerlega glórulaust. Vinnubrögð stjórnmálamanna við frágang þessa máls hafa fram til þessa í það minnsta ekki verið á þann veg að það gefi tilefni til bjartsýni. Þetta er í þriðja skiptið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar leggur fram frumvarp til breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum og málið versnar með hverju frumvarpinu sem fram kemur.