140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Já, það hafa borist af því fréttir að það eigi að fara fram með þetta veiðileyfagjald af hörku. Að vísu er komin breytingartillaga þar sem það er lækkað úr 18 niður í 15 milljarða og bara í Fjarðabyggð einni á að innheimta 3,7 milljarða.

Þingmaðurinn lýsti því vel hvernig ætti að útdeila þessu, það ætti að taka þetta úr heimabyggð hans og kjördæmi, fara með til Reykjavíkur og svo ætti að útdeila þessu hér. Ég minni þingmanninn á hvað þetta heitir, þetta er kratavæðing og þetta þekkjum við svo vel úr ríkjum Evrópusambandsins þar sem er verið að ná í skatttekjur inn í eitthvert miðstýrt apparat sem er núna forusta Samfylkingar og Vinstri grænna, þ.e. nú um stundir en verður ekki lengi. Svo ætlar þetta fólk að deila og drottna enda hefur það komið vel fram í lagafrumvörpum í þinginu síðan þessi ríkisstjórn tók við að það er jafnan búinn til einhver pottur eða sjóður sem ráðherra á sjálfur að ráða yfir. Þetta er það sem er að gerast.

Það er sérstaklega mikilvægt að bera þessar tölur saman við það sem gerðist þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon tók upp í fjárlög að rukka stóriðjuna, álverin, um fyrir fram greiddan skatt. Þá borgaði stóriðjan í fyrir fram greiddan skatt 3,1 milljarð í ríkissjóð en nú er verið að taka 3,7 milljarða af Fjarðabyggð. Þetta er gríðarlega há upphæð miðað við það sem stóriðjan hefur lagt til og því spyr ég þingmanninn: Var hann búinn að setja þetta í samhengi við hvað Fjarðabyggð skilar miklu inn í þennan (Forseti hringir.) pott verði þetta frumvarp að veruleika?