140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti telji nauðsynlegt að forsætisnefnd komi saman. En það verður auðvitað strax í fyrramálið þannig að fyrir liggi hver afstaða forsætisnefndar er þegar þingfundur hefst kl. hálfellefu.

Það er öllum ljóst að ummæli af þessu tagi geta ekki orðið án nokkurra afleiðinga. Það er ekki hægt að sitja undir því að hv. þingmenn beri hver annan sökum af þeim toga sem hv. þm. Björn Valur Gíslason gerði hér í kvöld. Það er alveg ljóst að við getum ekki látið sem ekkert sé.

Menn geta einfaldlega ekki farið niður á mikið lægra plan en það að bera aðra þingmenn sökum, ósönnum sökum eins og hér hefur verið gert, af þessum toga sem beinlínis hafði þann tilgang að reyna að sverta þann þingmann sem í hlut átti. Þannig getum við ekki leyft okkur að tala.

Við hljótum í fyrsta lagi að krefjast þess að hv. þingmaður biðjist afsökunar og ef hann ekki gerir það þá er það krafa mín að hæstv. forseti víti hv. þingmann fyrir þetta því að þetta eru svo alvarlegar sakir sem hv. þingmaður bar hér fram.