Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 13:00:27 (12529)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmanni er fullkunnugt um stóð Sjálfstæðisflokkurinn að niðurstöðu sáttanefndarinnar svokölluðu og að sjálfsögðu stendur Sjálfstæðisflokkurinn við það sem hann skrifar upp á. Það væri gott ef þessi frumvörp sem við ræðum hér endurspegluðu þá niðurstöðu en það er bara ekki þannig. Hvernig getur hv. þingmaður haldið því fram að þessi frumvörp sem hér eru til umræðu séu í einhverri líkingu við þá sátt? Jú, jú, það er hægt að segja: Það er talað um potta, það er talað um nýtingarsamninga, það er talað um veiðigjald. En þá ætla ég að spyrja hv. þingmann: Af hverju telja þá allir þeir umsagnaraðilar ekki að þetta sé í samræmi við niðurstöðu sáttanefndarinnar? Þeir voru, nota bene, líka aðilar að niðurstöðu sáttanefndarinnar. Þetta voru fulltrúar greinarinnar, sveitarfélaga, hagsmunasamtaka og sérfræðingar sem kallaðir voru fyrir nefndina og margir þeirra hafa skilað inn umsögnum að eigin frumkvæði.

Það er ekki hægt að koma hér upp, veifa einhverjum gömlum skýrslum og segja: Af hverju stendur þú ekki við þetta núna? Ég held að hv. þingmaður ætti að líta sér nær. Frumvörpin sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, jafnvel með þeim breytingum sem gerðar hafa verið varðandi veiðigjaldið en alls ekki vegna þeirra breytinga sem kynntar hafa verið varðandi hitt málið, eru ekkert (Gripið fram í.) í líkingu við þá niðurstöðu sem náðist í sáttanefndinni.