Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 14:41:43 (12533)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans. Hann tæpti nokkuð á því sem ég ræddi í ræðu minni í gær varðandi það hvort um gjöld eða skatt sé að ræða í þessu frumvarpi. Frumvarpið heitir frumvarp til laga um veiðileyfagjöld sem er algjört rangnefni vegna þess sérstaklega að í frumvarpinu er hoppað á milli hugtakanna gjöld og skattar.

Við búum sem betur fer við stjórnarskrárvarinn rétt fyrir ofríkum stjórnvöldum og í 1. mgr. 40. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að engan skatt megi á leggja né breyta né taka af nema með lögum.

Svo segir í 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Þegar þetta er borið saman við frumvarpið sýnir það á hve veikum grunni frumvarpið allt er byggt vegna þess að ríkisstjórnin telur að um veiðigjöld sé að ræða.

Mig langar því til að spyrja þingmanninn hvernig standi á því að í frumvarpinu kemur fram að ráðherra skuli skipa sérstaka nefnd sem skuli ákvarða hið svokallaða veiðigjald á hverju ári og hvort það sé ekki framsal á því valdi sem felst í stjórnarskránni að það skuli vera þriggja manna nefnd úti í bæ sem ákvarði þessa skattheimtu og hvort ekki sé um mikið skattaframsal að ræða frá Alþingi sjálfu.