Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 14:48:10 (12536)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrra gjaldið, veiðigjaldið, mætti flokka sem gjald ef að baki lægju útreikningar á því hvað sú veitta þjónusta kostar. (Gripið fram í: Rétt.) Þá yrði að leiðrétta það á hverju ári aftur á bak ef menn legðu of mikið á svo að einhverju munaði en ef litlu munaði mundi það sennilega standast. Fyrra gjaldið gæti því verið gjald ef menn líta á það sem þjónustu að stunda hafrannsóknir. Það er hins vegar spurning hvort rannsóknir geti flokkast undir þjónustu. Þá held ég að háskólinn færi víða og innheimti fyrir rannsóknir sínar.

Seinna gjaldið er greinilega skattur því að menn eiga að borga fyrir hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Það er ekki einhver þjónusta sem útgerðarmenn fá frá ríkinu eða slíkt. Þeir eru að borga skatt. Þá þarf að vera mjög ákveðið hver leggur á skattinn, hver ákvarðar upphæð skattsins o.s.frv. og hver innheimtir hann. Ég held að engar þessar forsendur standist. Reyndar var bent á það í nokkuð mörgum umsögnum að þetta gæti verið veikleiki og það væri ekki gott fyrir ríkið ef það fengi á sig dóm eftir einhver ár því að þetta stæðist ekki stjórnarskrá.

Ég held því að menn ættu að vanda sig dálítið meira og skoða þetta nánar í einhvern tíma til að fá úr því skorið hvort þetta sé hæfileg aðferð til að leggja á skatta. Til þess höfum við skattstjóra og ríkisskattstjóra og aðrar opinberar stofnanir sem sjá um innheimtu skatts en hér er ekki gert ráð fyrir því.