Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 14:52:51 (12538)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram um veiðileyfagjaldið undir hjartslætti hafnarinnar, ef svo má segja, því að nú hefur floti landsins siglt inn í Reykjavíkurhöfn og er tignarleg sjón að horfa á það í beinni útsendingu þegar skipin hafa raðað sér við bryggju. Og þetta eru ekki bara þeir sem að útgerðinni snúa heldur er þetta fiskvinnslufólk um land allt. Það er mjög gleðilegt að svona mikil samstaða skuli myndast á móti þessari verklausu ríkisstjórn sem hefur það eitt á verkefnaskránni að láta okkur sogast enn lengra niður.

Þetta átti að vera velferðarstjórn en hér eru málin rædd á Alþingi um eitthvað allt annað en heimilin og fjölskyldurnar, svo það sé líka sagt úr þessum ræðustól, vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur hvergi látið til sín taka í skuldamálum heimilanna. Hæstv. forsætisráðherra gekk meira að segja svo langt á mánudaginn var að tala niður sitt eigið afkvæmi, ef svo má segja, embætti umboðsmanns skuldara, og fann því allt til foráttu. Og á það skal minnst að það embætti kostar nú ríkissjóð 2.500 milljónir á ári eða 2,5 milljarða. Þetta er staðan.

Boðað hefur verið til útifundar á Austurvelli klukkan fjögur í dag og það verður gaman að fylgjast með því þegar hinar vinnandi stéttir mæta fyrir utan Alþingishúsið og láta til sín taka vegna þess að atvinnuleysi er mjög mikið þrátt fyrir að ríkisstjórnin láti hafa það eftir sér, sérstaklega hæstv. efnahags- og skattaráðherra, að hér sé lítið atvinnuleysi. En það er eins og hún átti sig ekki á því að Íslendingar hafa komið á fót nýrri útflutningsgrein undir forustu þessarar ríkisstjórnar en það er útflutningur á vinnuafli, og eru þá aðallega Íslendingar að flytja til Noregs.

Varðandi markmið frumvarpsins sem ég fór yfir hér í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal, er verið að leggja til að veiðigjöld verði lögð á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Það er stefna Framsóknarflokksins að landsmenn fái rentu af þessari auðlind og við skulum ekki gleyma því út af hverju sjávarútvegurinn er orðinn auðlind. Hér var sett á kvótakerfi vegna ofnýtingar fiskstofna og um leið og einhvers konar takmörkunarkerfi eru sett á eins og kvótakerfi skapast að sjálfsögðu verðmæti. Það er svipað og þegar Evrópusambandið fór að setja á markað loftslagsheimildir. Þá var andrúmsloftið allt í einu orðin auðlind því að þá var hægt að kaupa og selja mengunarkvóta. Þetta vill oft gleymast í umræðunni.

Í markmiðsgrein frumvarpsins er gjaldið tvískipt. Eins og fram hefur komið vil ég meina að það sé hægt að túlka gjaldahliðina mjög rúmt. Fyrri hlutinn gæti rúmast undir því að kallast gjald en hitt er klár skattheimta.

Þegar við lesum svo greinargerðina sem fylgir frumvarpinu segir þar um 2. gr., markmiðsgreinina, með leyfi forseta:

„Í greininni er gerð grein fyrir þeim tveimur meginmarkmiðum með álagningu gjalda á sjávarútveg, þ.e. að greinin standi undir opinberum kostnaði við hana og að arður af fiskveiðiauðlindinni renni í sameiginlegan sjóð eiganda hennar, þ.e. þjóðarinnar.“

Þarna er þjóðin túlkuð sem ríkissjóður. Ég er ekki viss um að allir séu sammála þeirri greiningu sem kemur fram í þessari grein, en um leið og er farið að tala um þennan sameiginlega sjóð, sem er þá sameign okkar allra, hugsar ríkisstjórnin þetta á þann hátt að fjármagnið renni inn í ríkissjóð og svo geti framkvæmdarvaldið útdeilt þessari rentu eins og því sýnist. Við erum að tala um að þessi skattur gæti jafnvel farið í greiðslu kostnaðarins við stjórnlagaþingið eða hvaða gæluverkefni ríkisstjórnarinnar sem er. Við skulum heldur ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur nú þegar ráðstafað þessu gjaldi áður en lagasetningin hefur farið fram, sem mér finnst athugasemdarvert. Ég vil einnig gera athugasemd við 4. gr., um veiðigjaldsnefndina sem á að stofna. Með henni er verið að framselja lagasetningarvaldið hér til framkvæmdarvaldsins, til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, því að hann á að hafa það verkefni að skipa þrjá menn og aðra þrjá til vara í nefnd til fimm ára til að ákvarða sérstakt veiðileyfagjald. Að mínu mati fer þetta alfarið á móti öllum reglum þar sem stjórnvöld hafa ekki skýrt það enn þá almennilega hvort um gjald eða skatt sé að ræða. Þess vegna tek ég undir orð hv. þm. Péturs Blöndals að efnahags- og viðskiptanefnd á að sjálfsögðu að fá þetta til umræðu og til greiningar og fá til sín sérfræðinga til að svara þessum spurningum því að veiðileyfagjaldið er náttúrlega fyrst og fremst hugsað sem skattur.

Hér er oft búið að ræða það að nánast allir aðilar sem sendu inn umsagnir mótmæltu frumvarpinu og enginn treysti sér til þess að gefa því jáyrði sitt að láta það fara óbreytt inn í þingið og verða að lögum, m.a. Landsbankinn og það slær mig mjög vegna þess að Landsbankinn er í ríkiseigu. Við þekkjum nú hörmungarsöguna í kringum það þegar hæstv. efnahags- og skattaráðherra tók hann yfir af ríkinu og það er búið að vera ansi sviptingasamt í Landsbankanum eins og við munum, en hann er í raun eini ríkisbankinn því að hinir tveir voru einkavæddir af núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Það kemur fram í umsögn Landsbankans að bankinn telur sig þurfa að afskrifa 31 milljarð af bókfærðu virði verði frumvarp þetta samþykkt, frú forseti. Þetta er eftir breytingartillögurnar, eftir að ríkisstjórnin bakkaði með að gjaldið ætti að vera 18 milljarðar og fór niður í 15 milljarða. Fyrstu tvö árin fara í það að rétta af tap Landsbankans af frumvarpinu. Þetta er svipað eins og þegar virðisaukaskattskerfinu var umbylt í tíð þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar; það vantar 40 milljarða þar inn í.

Ríkisstjórnin er því hvergi með heildstæða sýn í þessum skattpíningaráformum sínum því að við það að leggja skatta á eina atvinnugrein eins og í þessu tilfelli er það bankakerfið sem geldur fyrir. Þetta er ótrúlegt hversu illa ríkisstjórnin vinnur sín mál og hefur aldrei yfirsýn yfir það sem hún er að gera, því að þó að það komi tekjur inn á einum stað verða enn meiri útgjöld á öðrum stað.

Það er alltaf að hrynja meira undan þessu frumvarpi og meira að segja sjálfur Seðlabanki Íslands kemur þar að. Hann hefur verið hliðhollur þessari ríkisstjórn, því miður, þótt hann eigi að vera sjálfstæður. Í Icesave-málinu lagði hann til dæmis fram álit og villandi og rangar upplýsingar upphaflega um hvað ætti að vera hér mikið til af aflandskrónum. Seðlabankinn talaði alltaf um að 600 milljarðar lægju inni en svo er komið í ljós að það eru 1.000 milljarðar, þannig að það hefur alltaf verið svolítill tvískinnungur í álitum Seðlabankans. En nú hefur Seðlabankinn talað og telur að veiðigjaldið hafi bein áhrif á arðsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna.

Að lokum, frú forseti, langar mig til að benda á, vegna mótmælanna sem eru boðuð á Austurvelli klukkan 4, að íslenska sjávarútvegskerfið eins og það er uppbyggt, hefur hlotið tilnefningu til verðlauna fyrir stefnumótun sem er til þess fallin að skapa meiri lífsgæði fyrir núverandi og framtíðarkynslóðir. Þetta er sá grunnur sem íslenskur sjávarútvegur hefur byggst upp á undanfarna áratugi, allt frá því að lögin voru hér fyrst samþykkt árið 1990, með áorðnum breytingum. Ísland er tilnefnt til verðlauna fyrir framtíðarsýn og möguleika framtíðarkynslóða til að lifa af og verðlaunin verða veitt í september og kemur þá í ljós hvort Ísland hreppi þau. En þá kemur þessi verklausa ríkisstjórn fram með frumvarp sem á að kollvarpa þessu kerfi. Þetta er ekki hægt, frú forseti.