Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 15:05:29 (12540)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi að ég gæti þakkað hv. þingmanni svarið, sem ég fékk reyndar ekki og virðist það vera skipulögð hernaðaráætlun stjórnarandstöðuflokkanna hér á þingi að hunsa mig í andsvörum einhverra hluta vegna. Það verður þá bara að hafa það. Þeir hafa verið að kalla eftir samræðum og skoðanaskiptum í ræðustól um málið, það verður þá ekki af því, að minnsta kosti ekki við mig að því er virðist og ætla ég ekkert að gera frekari athugasemdir við það.

Miðað við frumvarpið eins og það lítur út núna er gert ráð fyrir að um 77,3% af því sem eftir stendur, þ.e. af áætluðu EBITDA í sjávarútvegi miðað við árið 2011, að um 73% af því verði eftir í greininni, þ.e. í sjávarútveginum, útgerðinni og greininni allri, en 22,3% verði í raun það gjald sem lendir hjá eiganda auðlindarinnar, þ.e. okkur öllum. Gangi það eftir, nái frumvarpið fram að ganga, verður yfirstandandi ár, árið 2012, samt sem áður þriðja stærsta árið í sjávarútvegi nánast frá því að mælingar hófust hvað framlegð sjávarútvegsins varðar eða um 63 milljarðar. Aðeins tvisvar hefur framlegð sjávarútvegsins orðið meiri, þ.e. árið 2011 og 2009, og jafnt þessari tölu árið 2010.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvernig harmónerar það við þá skoðun hv. þingmanns, sem hefur áður komið fram í þessari umræðu, að það gjald sem lagt er til að lagt verði á sjávarútveginn í frumvarpinu muni leiða til þeirra hörmunga í sjávarútvegi sem hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni þegar hér verður þrátt fyrir allt þriðja stærsta framlegðin í sögu íslensks sjávarútvegs eftir hjá þeim sem eru að nýta auðlindina?