Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 15:12:20 (12543)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þeir sem veita umsagnir telja upp að minnsta kosti fjórar greinar í frumvarpinu þar sem það brýtur gegn stjórnarskrá að þeirra mati. Þegar mál af þessu tagi liggur fyrir þinginu og nefndin hefur ekki orðið við því að skoða þessar alvarlegu athugasemdir í 2. umr. um málið, hvað telur þingmaðurinn að sé til ráða? Er ekki það eina rétta í stöðunni að senda málið til baka og byrja upp á nýtt ef menn hafa áhuga á því að leggja á veiðiskatt, eins og ætlunin er augljóslega samkvæmt frumvarpinu? Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé landsbyggðarskattur af því að meiri hluti þessara sjávarútvegsfyrirtækja starfar á landsbyggðinni. Ef menn hafa áhuga á að leggja fram slíkar skattatillögur, er ekki eina leiðin að þeir geri það þá í því formi sem lögin kveða á um og reyni að gera það þannig að það fari ekki gegn stjórnarskránni? Mér þætti mjög fróðlegt að heyra afstöðu hv. þingmanns varðandi framhald þessa máls. Ég sé enga aðra leið í málinu en þessa.

Síðan langaði mig líka að spyrja hv. þingmann, af því að það stendur til að samstöðumótmæli verði hér klukkan fjögur, hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því samráðsleysi sem viðhaft er í þessu máli. Menn hafa margoft komið í ræðustól, bæði á þessu ári og á undanförnum tveimur árum, eftir að ég og hv. þingmaður settumst á þing, og talað um að nú eigi að hafa samráð um hlutina og talað fyrir því, en síðan þegar á reynir í erfiðum og flóknum málum virðist mér þetta vera orðin tóm.