Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 15:14:36 (12544)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum mjög sammála, ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Þetta er því miður ekki eina málið þar sem hin svokallaða ríkisstjórn fer gegn umsagnaraðilum.

Það er búin að vera mjög þung umræða í vetur og vor um tillögur ríkisstjórnarinnar um að setja ákveðnar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki nokkur einasti aðili sem kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gat mælt með því að þetta mál hlyti þann framgang sem ríkisstjórnin ætlar sér í þeim efnum.

Eins gerist nú í þessu máli. Ég veit ekki hvar sú ríkisstjórn er stödd sem ekki getur hlustað á ráðgjöf. Líklega er staðan þessi vegna þess að hér er forsætisráðherra sem hefur sýnt það á sínum tæplega 35 ára þingferli að hún þarf ekki að hlusta á einn eða neinn og ráð hennar og skoðanir eru sem lög í þessu sambandi. Það er alveg óendanlega sorglegt að við skulum þurfa að sitja uppi með slíka ríkisstjórn nú þegar við gætum verið búin að koma atvinnulífinu af stað og bjargað skuldugum heimilum, en hér er spólað í sama farinu. Varðandi lagasetninguna og að það skuli yfir höfuð koma frumvörp fyrir þingið sem brjóta beinlínis gegn stjórnarskránni sýnir það sem ég hef svo oft talað fyrir að hér þarf að styrkja löggjafarvaldið. Það þarf að setja á stofn lagaskrifstofu Alþingis og styrkja þingið bæði faglega og fjárhagslega, en það er ekki vilji hjá núverandi ríkisstjórn til að gera það.

Varðandi samstöðuna vísa ég aftur til fyrri orða minna um núverandi hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra talar fyrir samráði en í hennar huga þýðir samráð: Ég ræð. Það er ekki samráð.