Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 15:46:45 (12550)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það í ræðu í gær hvort ekki væri rangt heiti á þessu frumvarpi, hvort það ætti ekki að heita frumvarp til laga um landsbyggðarskatt. Ég hef fært rök fyrir því að það sé réttnefni á frumvarpinu. Um 90% þeirra útgerða sem hafa veiðiheimildir eru jú staðsettar úti á landi og ansi margar í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi sem nær frá Siglufirði til Djúpavogs. Þar eru Akureyri, Húsavík, Fjarðabyggð, Vopnafjörður og Þórshöfn.

Ég fór yfir þær fjölmörgu umsagnir sem hafa borist frá sveitarstjórnum í mínu kjördæmi. Ég taldi rétt að gera það vegna þess að hér hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans komið fram og sakað okkur um sérhagsmunagæslu fyrir kvótakónga og sægreifa. Á það þá við um þá sveitarstjórnarmenn sem skrifa undir þær umsagnir og eru í Samfylkingunni eða í Vinstri grænum? Ég spyr vegna þess að hvert einasta álit sem borist hefur frá sveitarstjórnum og hagsmunaaðilum í Norðausturkjördæmi varar sterklega við að frumvörpin séu samþykkt á þann veg sem þau eru sett fram.

Ég ætla að leyfa mér að gagnrýna annað sem ég tel vera grafalvarlegt mál og það er að íbúum á landsbyggðinni er endalaust stillt upp hverjum á móti öðrum. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að það væri jú hægt að taka aukinn skatt af útgerðinni og nota til að greiða niður vaxtagjöld. Ég get ekki séð að sá sé tilgangurinn með þessum veiðileyfagjöldum, það er búið að ráðstafa þessum fjármunum í einstök verkefni. Fjárlaganefnd Alþingis er algjörlega sniðgengin. Þar erum við nú einmitt að ræða um að ráðherrar eigi ekki að geta komið fram og lofað upp í ermina, hvorki með ætlaðar tekjur né hvert fjármunir eigi að fara. Við höfum samþykkt þingsályktunartillögu sem gerir það að verkum að þetta vald á að koma aftur hingað inn á Alþingi.

Vandi ríkissjóðs er mikill, það sýna því allir skilning. En hvaðan skyldu þó tekjurnar vera að koma? Úr sjávarútveginum? Já, vissulega. Eins og verið hefur í marga áratugi. Ekki er svo langt síðan Samfylkingin fór að ræða það héðan úr ræðustól að menn þyrftu ekki að hafa miklar áhyggjur af sjávarútveginum, hér væri komið bankakerfi sem gæti staðið undir þeim tekjum. Skyldu þeir þingmenn hafa haft rangt fyrir sér? Ég er ansi hræddur um það.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar tekið lán frá stóriðjufyrirtækjum, álframleiðendum, inn í framtíðina. Til hvers? Jú, til að fegra stöðu ríkissjóðs í dag. Verið er að taka lán sem mun bitna á komandi kynslóðum vegna þess að þeir fjármunir munu ekki koma tvisvar inn í ríkissjóð. Með ofurskattlagningu á útgerðina er einfaldlega verið að skerða … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti beinir þeim tilmælum til þingmanna í hliðarsal að trufla ekki þingfundinn.)

Virðulegi forseti. Þetta truflaði mig ekki neitt.

(Forseti (ÁI): Þingfundinn.)

Ég þakka forseta samt fyrir að lækka aðeins í þeim þarna frammi.

En svo ég haldi nú þræði í því sem ég var að reyna að segja þá er einfaldlega ekki endalaust hægt að ganga að mjólkurkúnni. Þú mjólkar hana ekki ef þú ert búinn að höggva undan henni lappirnar og það vita hv. þingmenn.

Af hverju stöndum við ekki hér og ræðum tillögur hinnar svokölluðu sáttanefndar? Af hverju gerum við það ekki? (HHj: Við erum að því.) Við erum nefnilega ekki að því. Tillögurnar sem komið hafa fram frá hæstv. ríkisstjórn voru ekki einu sinni byggðar á réttum reikningsgrunni, taka átti um 50 milljarða út úr greininni. Svo koma menn og viðurkenna mistök, allt í lagi, menn gera mistök og það er ágætt að stíga fram og viðurkenna það. En það á eftir að leiðrétta hið ofurháa veiðigjald sem mun bitna á sjávarútveginum hringinn í kringum landið.

Virðulegi forseti. Nú vantar klukkuna sex mínútur í fjögur. Klukkan fjögur hefst borgarafundur úti á Austurvelli og mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort til standi að fresta þingfundi á meðan fundarhöld fara fram hér fyrir utan húsið.

(Forseti (ÁI): Nei, hv. þingmaður.)

Nei, er svarið. Ég held að Alþingi hefði átt að sýna sjómönnum og fiskverkafólki þá virðingu að gera hlé á þingstörfum þannig að þingmenn geti farið út og tekið í höndina á fólki og kynnt sér með beinum hætti og milliliðalaust hvað fólkið í landinu hefur að segja. Á Austurvelli verða samankomnir sjómenn og fiskverkakonur og -menn og það fólk er að mótmæla eins og sveitarstjórnirnar í landinu. Menn geta haft ýmis orð um stjórnarandstöðuna, gott og vel, en það er alvarlegt mál að beina þeim orðum líka til allra þeirra ágætu sveitarstjórnarfulltrúa sem eru sammála um að of langt sé gengið og að um landsbyggðarskatt sé að ræða.

Hvernig stendur á því að landshlutum er endalaust att saman? Ekki er nóg með að taka eigi veiðiheimildir úr Norðausturkjördæmi og færa eitthvert annað heldur hefur ríkisstjórnin reynt að etja saman einstökum vegaframkvæmdum úti á landi. Nú er meira að segja svo langt gengið að gefið er í skyn að þessi ofurskattlagning geti gert það að verkum að farið verði í samgönguverkefni og jafnvel verði minni niðurskurður í heilbrigðismálum.

Landsbyggðin skal borga ef hún vill fá eitthvað en samt er það þannig — og það er ágætt að hv. þm. Helgi Hjörvar heyri það — að landsbyggðin fær ekki nema brot af því sem hún greiðir í skatttekjur. Búið er að sýna það og sanna, Háskólinn á Akureyri hefur gert skýrslu sem sýnir það og sannar, að þeir fjármunir sem renna í ríkissjóð skila sér ekki til baka í Norðausturkjördæmi. Tökum eitt sem dæmi. Við í fjárlaganefnd höfum verið að berjast fyrir því að menningarstarfsemi úti á landi verði styrkt. En hvað gerist hjá núverandi ríkisstjórn? Sá menningarsamningur sem gerður var á svæði Eyjafjarðar var skorinn niður um 50% af núverandi ríkisstjórn.

Virðulegur forseti. Þetta rennur allt í sömu áttina. Ef landsbyggðin vill fá eitthvað þá skal hún borga. Mér svíður það líka að á meðan til stendur að skattleggja sjávarútveginn, með tilheyrandi skaða fyrir byggðirnar í landinu, þá er ríkisstjórnin reiðubúin að veita skattaívilnanir annars staðar, hún veltir því ekkert sérstaklega fyrir sér.

Virðulegur forseti. Nú er borgarafundurinn að hefjast hér fyrir utan. Ætlar forseti að standa við það að fresta ekki þingfundi á meðan ræður verða haldnar hér fyrir utan? — Þögn er væntanlega sama og samþykki í þessu tilviki þannig að ég lít svo á að fyrri orð standi. Ég held samt, virðulegur forseti, að við mundum auka virðingu Alþingis með því að gera stutt hlé, klukkutíma eða svo, svo að við getum farið út og rætt við þá sem eru að berjast fyrir atvinnu sinni.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað komið fram og sagt: Við erum að vinna eftir hinni svokölluðu sáttaleið. Sumir hafa gengið svo langt að segja að þetta sé allt nánast samhljóða stefnu Framsóknarflokksins. Það kvað svo sterkt að því að þingflokkurinn, allir sem einn, skrifaði undir sérstaka yfirlýsingu þar sem því er algjörlega hafnað að frumvörpin séu í ætt við það sem við framsóknarmenn höfum lagt fram. Um leið sögðum við að við mundum berjast gegn þeim úr ræðustól Alþingis.

Mig langar til að benda á einn lítinn grundvallarmun. Við tölum um auðlindarentu, það er rétt. En það þýðir samt ekki að hugsunin á bak við hana sé sú sama og hjá ríkisstjórnarflokkunum. Hjá ríkisstjórnarflokkunum rennur það allt saman í ríkissjóð og svo fær ráðherra valdheimildir til að dreifa því eftir því sem honum þykir best.

Dr. Níels Einarsson hjá stofnun Vilhjálms Stefánssonar við Háskólann á Akureyri segir í skýrslu sinni, með leyfi forseta:

„Almennt má segja að frumvarpið boði fremur flókið og þunglamalegt kerfi þar sem ráðherra tekur sér mikið vald …“

Það var ekki hugsunin í stefnu Framsóknarflokksins, síður en svo. Við vildum að hluti auðlindarentunnar mundi renna til greinarinnar sjálfrar, til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstarfa. Það var það sem við lögðum upp með. Við töldum nauðsynlegt að nýir aðilar gætu sótt um styrk til nýsköpunar og rannsókna til að auðga þekkingu og nýtingu á auðlindinni. Þá vildum við — og það er mikilvægur punktur — að hluti gjaldsins mundi renna aftur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til einkum til mótvægis því að annars mætti halda því fram að um væri að ræða viðbótarskattlagningu sérstaklega á landsbyggðinni.

Umsögn kom frá Langanesbyggð sem hefur þurft að glíma við mikla fólksfækkun í gegnum árin. En að undanförnu hefur atvinnulíf í Langanesbyggð staðið í nokkrum blóma. Af hverju? Vegna þess að þar er öflugur sjávarútvegur sem Ísfélag Vestmannaeyja hefur rekið og fjárfest verulega í. Þar er einnig öflug útgerð sem gerir út bátinn Geir ÞH og sér mörgum fjölskyldum í sveitarfélaginu farborða. Fiskvinnslufyrirtækið Toppfiskur skapar einnig fjölda starfa á staðnum. Í umsögninni sem kemur frá sveitarstjórn sem í eru allra flokka menn segir að auðlindagjald sé landsbyggðarskattur. Og þetta er á landsvæði sem hefur verið eitthvert það viðkvæmasta á landinu. Einnig má benda á umsagnir frá Vesturbyggð, Patreksfirði, Bíldudal, Tálknafirði — Suðurfjörðunum — sem eru í svipaða átt, og frá Bolungarvík. Þetta eru álit sem koma frá viðkvæmustu svæðum landsins.

Í umsögn Langanesbyggðar segir:

„Sú gríðarlega harkalega og í raun ofsafengna skattlagning sem boðuð er í frumvarpinu mun á skömmum tíma ríða íslenskum sjávarútvegi að fullu.“

Grýtubakkahreppur — ég vek athygli á að sveitarstjórinn mun halda ræðu á Austurvelli innan skamms. Ég hefði svo sannarlega, virðulegi forseti, viljað hlusta á þá ræðu. Grenivík er ekki stórt byggðarlag en það á allt sitt undir því að á svæðinu sé öflug fiskvinnsla. Í umsögn þeirra segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að slík gjaldtaka sem boðuð er í frumvörpunum er fyrst og fremst landsbyggðarskattur. En það er vísasta og skjótvirkasta leiðin til að leggja fjölmargar sjávarbyggðir í rúst og er Grenivík engin undantekning. Einnig mun ríkissjóður finna verulega fyrir skaðanum þegar búið verður að knésetja sjávarútveginn.“

Maður skyldi þá ætla að ríkisstjórnin væri að breyta sjávarútvegsmálum eins og þeir lögðu til samkvæmt sinni stefnu. Vandamálið var að sú stefna, byggð á ómálefnalegum popúlisma í gegnum árin, stóðst ekki nánari skoðun. Nú eru þingmenn meiri hlutans orðnir algjörlega afhuga því að gjörbylta kvótakerfinu, þeir ætla bara að skattleggja það í drep.

Ég held að við þurfum núna að horfa á þá gjá sem myndast hefur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, okkar ágætu höfuðborgar sem er höfuðborg alls landsins. Einn forsetaframbjóðandinn, Þóra Arnórsdóttir, lét hafa þau orð eftir sér eftir að hún ferðaðist um landið — ég skildi hana þannig og vona að ég fari rétt með — að hún hefði ekki gert sér grein fyrir þeirri miklu gjá sem orðin væri á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Samt er hún fréttamaður í fremstu röð og maður skyldi ætla að Ríkisútvarpið sinnti landsbyggðinni jafnvel þó að svæðisbundnu stöðvarnar hafi illu heilli verið lagðar niður á sínum tíma. En það er gott, og því ber að fagna, þegar fólk áttar sig á þeirri gjá sem myndast hefur. Sú gjá er á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar, það er enginn annar sem ber ábyrgð á þeirri gjá sem myndast hefur á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

Af hverju ræðum við ekki þingsályktunartillögu sem ég er 1. flutningsmaður að sem snýr að því að mótuð verði byggðastefna fyrir allt landið? Það skiptir öllu máli að mótuð verði heildstæð byggðastefna til að minnka þá gjá og það bil sem verið hefur á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Það gengur ekki að fólk standi á Austurvelli trekk í trekk til að mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar.