Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 16:19:08 (12556)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður er bara ekki vanur þessari nýju og röggsömu stjórn hæstv. forseta en hana ber að þakka.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni, það er í rauninni galið að við, tveir þingmenn, skulum standa hér og ræða um hið mikilvæga mál sem umfjöllun fer fram um á sama tíma hér úti á Austurvelli, og að hæstv. forseti skuli ekki fresta fundum eins og virðingarvert væri að gera að mínu mati.

Ég vil svara hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um leið og ég þakka fyrir fyrirspurnir hans. Það skiptir öllu máli að hér sé hagkvæmur og arðsamur sjávarútvegur. Þegar við loksins fórum að veiða af kappi og færðum fiskveiðilögsöguna úr 50 mílum og síðan upp í 200 mílur komumst við út úr moldarkofunum. Þá gátum við farið að byggja upp mennta- og heilbrigðiskerfi sem var jú hér áður fyrr talið lofsvert, en í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa verið höggvin skörð í þau.

Það er ótrúlegt að hlusta á þann málflutning að eigendur fyrirtækja séu að arðræna þjóðina þegar við vitum að þeir standa fyrir störfum víðs vegar um landið. Ég hef ítrekað sagt að ég er reiðubúinn að berjast fyrir sjómönnum, fiskverkakonum og -mönnum og öllum þeim sem vinna við afleidd störf tengd sjávarútvegi hringinn í kringum landið. Það er það sem við eigum að horfa til á meðan haldinn er borgarafundur á Austurvelli þar sem tillögum stjórnarinnar er mótmælt harðlega.