Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 16:45:24 (12564)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Af einhverjum ástæðum eru 80% af útgerðinni úti á landi. Það stendur hvergi í lögum og ég hef hvergi séð neitt sem þvingar útgerðina út á land. Það virðist því vera að útgerðin sé hagkvæmust úti á landi. Eftir því sem maður gerir umhverfi útgerðarinnar liprara, eftir því sem við léttum meiri hlekkjum af útgerðinni, sem er, eins og ég sagði áðan, dugmikill risi sem skjögrar um með gífurlega hlekki, og svo á að stórauka þá, þá held ég að hún muni leita út á land vegna þess að þar er styst á miðin, þar er sérþekkingin og mjög margt ætti að leiða til þess að útgerðin leiti þangað.

Það sem þetta frumvarp gerir hins vegar er að setja stóraukna skatta á útgerðina þannig að mörg fyrirtæki munu fara á hausinn. Það er viðurkennt. Menn segja bara: Það er allt í lagi, jú, fyrirtæki þurfa að fara á hausinn. En hvert einasta fyrirtæki sem fer á hausinn skilur eftir sig sár. Fólk missir vinnuna. Það getur vel verið að það komi nýtt fyrirtæki í staðinn en það skilur eftir sig sár. Það er það sem ég held að sveitarfélögin óttist, þ.e. áhrif frumvarpsins, vegna þess að skattlagningin er hreinlega of mikil. Hún er of brött og of mikil og þó að búið sé að milda það töluvert held ég að hún sé enn þá of brött fyrir utan það að það er ekkert sjálfgefið að sjávarútvegur gangi vel eins og fyrstu þrjú árin eftir hrun þegar gengið er í lágmarki. Ég ætla að vona að menn reikni ekki með því að gengið haldist svona lágt, að lífskjör þjóðarinnar haldi áfram að vera svona léleg og að fjölskyldurnar eigi áfram að blæða fyrir lágt gengi. Ef gengið hækkar versnar staða útgerðarinnar og þá er hún ekki lengur í færum til að borga til dæmis 9,50 kr. á kíló fyrir utan hitt gjaldið.