Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 17:06:51 (12569)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ræðuna. Hann segir að þetta sé allt ljómandi gott, það eigi að taka peninga af útgerðinni og setja þá í fjárfestingaráætlun og allir fái vinnu við hæfi og voða gaman. En það skyldi þó ekki vera að það gæti tapast atvinna hjá sjávarútveginum á móti? Einhvers staðar þarf að spara þessa peninga eða minnka fjárfestingar. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er þarna ekki verið að lofa einum of miklu?

Þar fyrir utan er það nefnt í áætlunum og ræðum stjórnarliða og sjávarútvegsráðherra sjálfs að miklar sveiflur hafa verið í þessu gjaldi síðustu tíu árin og það hefur gerst að gjaldið hefur farið nánast niður í núll. Hvað ef það gerist á næsta ári og þarnæsta ári? Hvað verður þá um þessa fjárfestingaráætlun þar sem búið er að ráðstafa þessum peningum?

Hv. þingmaður talaði líka endalaust um þjóðina. Maður verður dálítið þreyttur. Það er eins og hv. þingmaður þekki þjóðina, bara svona persónulega, spjalli við hana á morgnana og viti nákvæmlega hvað hún vill. Jafnframt segir hann að þjóðin sé það sama og ráðherra. Getur verið að Steingrímur J. Sigfússon, sem á að víla og díla með þetta allt saman, sé þjóðin? Að það sé maðurinn sem hv. þingmaður spjallar alltaf við á morgnana?

Það er nefnilega djúp gjá á milli Jóns og Gunnu, sem vinna í verslun eða í frystihúsi eða eitthvað slíkt, og ríkisvaldsins sem stýrt er af stjórnmálamönnum sem eru að ná sér í atkvæði með strandveiðum eða pottum eða einhverju slíku. Það er djúp gjá þarna á milli. Það uppgötva Jón og Gunna í fyrsta lagi þegar þau þurfa að borga skattana til „þjóðarinnar“, til ríkisins.