Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 17:18:41 (12576)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:18]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti það í ræðu minni að ég tel að sjávarútvegurinn geti mjög vel borið það veiðigjald sem lagt er upp með í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar og rökstuddi það meðal annars með því að benda á það að þegar við tökum þá framlegð sem fyrirsjáanleg er í greininni á þessu ári upp á 78 milljarða og drögum 15 milljarða frá, erum við samt sem áður með meðaltalsframlegð sem er langt yfir þeirri framlegð sem greinin hefur skilað undanfarinn áratug og rúmlega það. (Gripið fram í.) Ef þetta væri einhvers konar náðarhögg værum við ekki með neinn sjávarútveg í landinu í dag, það er staðreynd málsins.

Síðan er ég þeirrar náttúru að ég held að menn eigi alveg fram á síðasta dag að reyna að freista þess að laga þau frumvörp sem eru til meðferðar í þinginu. Viðamikið frumvarp eins og þetta eigum við að sjálfsögðu að reyna að laga alveg fram á lokadag. (Forseti hringir.) En ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki of langt gengið varðandi veiðigjaldið (Forseti hringir.) og það sé mjög mikilvægt að þessir fjármunir skili sér í sameiginlega sjóði landsmanna.