Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 17:27:05 (12581)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Í dag hefur komið í ljós hvaða afleiðingar það hefur þegar ríkisstjórnin, sem ber ábyrgð á því ástandi sem orðið er í samfélaginu, gengur fram með öfgum, gengur fram með yfirlýst pólitísk markmið sem ganga þvert gegn þeim markmiðum sem sömu stjórnarflokkar setja fram í markmiðsgreinum frumvarpa. Frumvörpin eru síðan því marki brennd að nánast hver einasta grein gengur þvert gegn þeim markmiðum sem menn setja sér.

Hér koma þingmenn, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, og eru sammála um markmiðin en þau eru að byggja upp öfluga og þjóðhagslega atvinnugrein sem skilar sem mestum arði til þjóðarbúsins. Um það eru allir sammála. Síðan leggja menn fram öfgafulla stefnu sem hreinlega verður til þess að samfélagið titrar allt.

Ég var úti á Austurvelli áðan. Það var ekki ánægjuleg tilfinning að standa þarna úti þar sem eru friðsamleg mótmæli og haldnar málefnalegar ræður af útgerðarmönnum, af sjómönnum, úr fólki úr sveitarfélagageiranum og öðrum geirum, og það er annar hópur mættur til leiks sem æpir allan tímann jafnhátt að hverjum einasta sem talar. Þessari gjá sem dýpkar og dýpkar á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis ber ríkisstjórnin alla ábyrgð á. Gjáin var til, hún hefur verið að myndast í langan tíma. Það hefur meðal annars komið fram að 75% af umsvifum ríkisins eru í Reykjavík en aðeins 40% teknanna. Höfuðborgarsvæðið hefur allt stjórnkerfið og hið ríkisstyrkta menningarlíf, hefur alla möguleika á hinu og þessu. Þegar sú staða er uppi finnst mönnum einfaldlega of langt gengið að sömu aðilar ætli að koma inn í atvinnugrein sem byggir á landsbyggðinni — 87% útgerðarinnar er gerð út frá landsbyggðinni vegna þess að það er hagkvæmast — og taka jafnvel 10% af veltu þessara fyrirtækja og segja að það sé einhver umframhagnaður, alveg óháð því hvernig reksturinn og staða fyrirtækjanna er. Þá segja menn: Hingað og ekki lengra. Þá halda menn samstöðufund á Austurvelli og reyna að koma sjónarmiðum sínum þar á framfæri, skila inn ályktun til þingflokkanna þar sem þeir biðja Alþingi um að fara vandlega yfir frumvörpin, vanda sig og gera ekkert sem mundi raska þeim möguleika að ná þeim markmiðum sem allir eru sammála um að eigi að ná, markmiðum um hagkvæmni og þjóðhagslegan afrakstur af þessari atvinnugrein sem og öðrum.

Niðurstaðan er sú að gjáin dýpkar. Þeir sem vilja ekki hlusta æpa að öllum sem tala og ég hef satt best að segja, frú forseti, upplifað það sama hér í þingsal. Hér hafa þó nokkrir stjórnarliðar tjáð sig um þessi mál og ekki síst veiðigjaldið af því að við erum auðvitað að ræða það, en það hefur engu að síður blandast við stjórn fiskveiða af eðlilegum ástæðum vegna þess að þau mál eru ákaflega samtengd. Hér koma menn og segja: Mér finnst bara eðlilegt að taka 15 milljarða — en sú tala er nú orðin 6, 7, jafnvel 10 milljarða afsláttur af þeim gölnustu öfgum sem voru lagðar fram upphaflega í frumvarpi sem var svo illa unnið, frú forseti, að sérfræðingarnir sem atvinnuveganefnd fékk til að skoða verkið sögðu: Við gátum ekki notað þetta frumvarp og við notuðum bara raunverulegu tölurnar. Ef við miðuðum aðeins við frumvarpið var ekki um 70% skattlagningu að ræða heldur 140%. Þegar menn eru búnir að fara yfir þetta og skoða í reynd verður hreinlega að viðurkennast að frumvörpin komu allt of seint inn og voru allt of illa unnin, þannig að þingið hefur vart haft möguleika á að vanda sig við verkið. Eðlilegast hefði kannski verið að ýta þeim frá.

Annað alvarlegt atriði kom fram í ályktuninni sem þingflokksformennirnir fengu og það var að menn kröfðust þess að það yrði haft samráð. Í atvinnuveganefnd þar sem ég á sæti spurði ég alla þá sem komu fyrir nefndina — þetta kemur fram í nefndaráliti mínu — hvort haft hefði verið samráð við þá, hvort sem það voru hagsmunaaðilar í greininni eða fulltrúar sveitarfélaga eða ríkisstofnana, við gerð þessara frumvarpa. Svarið var alltaf það sama: Nei, það var ekki. Þess vegna er það mjög eðlileg krafa frá þeim sem stunda útgerð í landinu og vinna við þessa atvinnugrein að haft sé samráð við þá þegar slíkar hugmyndir, öfgafullar hugmyndir, sprottnar úr pólitískum jarðvegi, koma fram á tímum þegar við ættum öll að vera sammála um að taka höndum saman og komast í gegnum kreppuna saman. Við erum 320.000 manna þjóð og ættum að lifa í sátt og samlyndi í landi með gríðarleg tækifæri til framtíðar ef við nýtum náttúruauðlindir okkar á skynsaman hátt, sem við höfum t.d. borið gæfu til í sjávarútveginum. Kvótakerfið sem margir stjórnarliðar sérstaklega tala mjög harkalega gegn er einmitt það kerfi sem hefur skapað þessa gríðarlega góðu stöðu samfélagsins og atvinnugreinarinnar.

Nú er aftur á móti uppi sú staða að sérfræðingar meta það svo í greinargerð um veiðigjaldið að umtalsverður fjöldi fyrirtækja muni fara á hausinn, þau standi ekki undir gjaldinu vegna þess að þau eru svo skuldsett. Síðustu ár hefur útgerðin greitt inn í bankakerfið 23, 24 milljarða á hverju einasta ári. Landsbankinn mat það þannig að ef þessi frumvörp færu í gegn óbreytt mundi afskriftaþörfin aukast um 31 milljarð. Landsbankinn er í eigu þjóðarinnar. Ætla menn að taka úr hægri vasanum og færa í þann vinstri? Þetta er því miður því marki brennt að hér er farið fram með allt of miklum flumbrugangi, öfgahætti, hér er gengið fram af offorsi í því að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar. Menn koma í ræðustól Alþingis, þeir blogga og skrifa greinar og æsa upp þá sem ekki hafa sett sig inn í staðreyndir um grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og segja að allir, þjóðin öll eigi rétt á hluta í arðinum.

Auðvitað á þjóðin rétt á hluta í arðinum og hún fær gríðarlegan hluta í arðinum. Tökum dæmi. Einn kolmunnatúr sem útgerð fer í skilar 80 milljónum í veltu. Hvað skyldi stór hluti af þeim tekjum fara beint til ríkisins í dag? Jú, það er meira en 1/4 hluti sem fer þangað. Það er því ekki þannig að ekkert af tekjum útgerðarinnar í dag renni til þjóðarinnar.

Tökum árið 2011 sem dæmi. Auðlindagjald var upp á 4,5 milljarða, sem er talsvert hærra en verið hefur enda útgerðin í stakk búin til þess að borga hóflegt gjald. Á sama tíma, vegna þess að það hefur myndast hagnaður í greininni, mun greinin sennilega greiða um 5 milljarða í tekjuskatt. Það fara því 9,5 milljarðar í opinbera skatta, veiðigjöld og tekjuskatt sem fara til þjóðarinnar. Á þessu ári eru menn með hugmyndir um að hækka þessa upphæð nærri þrefalt, þeir byrjuðu fimmfalt og enda í 2,5. Er það sanngjarnt, er það réttlátt? Er réttlátt að hluti fyrirtækja í þessari atvinnugrein fari á hausinn vegna þess að menn hafa ekki gefið sér tíma til þess að skoða afleiðingar frumvarpsins? Er það sanngjarnt, er það réttlátt að menn hafi ekki gefið sér tíma í að hreinlega endurskrifa frumvarpið um stjórn fiskveiða vegna þess að það hefur svo mikil neikvæð áhrif sem mun gera atvinnugreinina ófæra um að vera hagkvæma, ófæra um að skila þjóðhagslegum arði, ófæra um að standa undir þessum veiðigjöldum? Er það réttlátt, er það skynsamlegt? Nei, það er óskynsamlegt og óréttlátt og skilar þjóðinni engum tekjum, frú forseti, það er vandinn.

Þess vegna þurfum við að leggjast yfir það hvað er hóflegt gjald. Við þurfum að svara því út frá þessari spurningu: Hvað er það sem útgerðin getur skilað til ríkisins? Og við þurfum líka að vera tilbúin til þess að ræða það alvarlega hvernig við erum að skattleggja landsbyggðina umfram það sem hún er skattlögð í dag, sem er verulegt. Önnur hver króna sem til verður á landsbyggðinni rennur beint í ríkiskassann sem er meira en í öðrum byggðarlögum. Þetta á síðan að bætast við, tíu sinnum hærri upphæð á að renna frá landsbyggðinni til ríkisins án þess að menn hafi sýnt á spilin, án þess að þeir hafi sýnt hvernig þeir ætli að koma þessum fjármunum út aftur. Er ekki skynsamlegast að fólkið á svæðunum geri það sjálft, (Forseti hringir.) eða er skynsamlegast að ríkið og stjórnmálamenn standi í því vafstri? Ég segi nei við því.