Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 17:41:52 (12584)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Upplýsingar eru akkúrat lykillinn að því að fá einhvern botn í málin og geta tekið ákvarðanir sem teljast þokkalega gáfulegar. Hér virðist vera rennt blint í sjóinn og þeir sem tala fyrir þessum vinnubrögðum eru agalega hissa á því að við séum ekki kát yfir því að það sé þó búið að lækka gjaldið. Ég skil einfaldlega ekki hvernig menn fara að því að stjórna heilli þjóð ef þeir geta ekki einu sinni lagt fram útreikninga á því hvernig þeir hugsa hlutina. Maður hefur smááhyggjur af því ef þetta birtist okkur svona í þessu máli hvernig öll önnur mál eru vaxin hjá þeim sem stjórna landinu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, því að í nefndaráliti 1. minni hluta, þ.e. frá sjálfstæðismönnum í atvinnuveganefnd, er mikið talað um stjórnarskrána og þar birtist að a.m.k. fjögur stjórnarskrárákvæði stangast á við þetta frumvarp. Hv. þm. Helgi Hjörvar kom í andsvar við mig fyrr í dag og sagði að rétt væri að skoða það, þetta atriði þyrfti að skoða. Ég spurði hv. þingmann hvenær ætti að gera það því að við erum í 2. umr. um þetta mál og ég heyri ekki betur en svo að hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sé mikið í mun að við samþykkjum þetta mál óbreytt.

Deilir hv. þingmaður þeim áhyggjum með mér og öðrum þingmönnum að frumvarpið brjóti gegn stjórnarskrá en stjórnarliðar ætli sér engu að síður að keyra málið í gegn? Er þetta ekki eitthvað sem ber að hafa áhyggjur af? Er þetta ekki eitthvað sem við einsettum okkur að gera ekki þegar við sátum í þingmannanefndinni svokölluðu (Forseti hringir.) og lögðum til bætt vinnubrögð í þinginu? (HHj: 63:0.)