Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 18:09:35 (12593)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, ég held að það hafi verið óvenjulega heiðarlegt í þessari umræðu vegna þess að þingmaðurinn gengst einfaldlega við því að hann hafi önnur sjónarmið um eignarréttinn á auðlindinni en við sem tölum fyrir frumvarpinu, ef ég skil hv. þingmann rétt og hann leiðréttir mig þá í síðara svari sínu, þ.e. að það sé háð einkaeignarrétti. Það sé sem sagt fiskurinn í sjónum og rétturinn til að veiða hann, hann sé eign útgerðarmannanna en ekki almennings í landinu og ríkisins. Þá er auðvitað eðlilegt að menn hafi önnur sjónarmið um það hvað er hæfilegt veiðigjald ef menn telja að þetta sé eign útgerðarmannanna en ekki almennings.

Það sem hér er gert ráð fyrir í veiðigjald er að greinin greiði 9,50 kr. á hvert þorskígildiskíló til að standa straum af hluta af kostnaðinum við þjónustu við sjávarútveginn. Ég vil þá annars vegar spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé óhæfilegt gjald, 9,50 kr., til að standa undir Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og hluta kostnaðar við Landhelgisgæsluna og öðru slíku. Hins vegar er gert ráð fyrir því að í gríðarlega góðu árferði eins og nú er sé greinin að skila liðlega 20 kr. og byggir sannarlega á því að þetta sé eignarréttur almennings, aðgangurinn að auðlindinni og fiskurinn í sjónum. Úr því að þingmanninum þykir það vera óhæfilega hátt endurgjald hvað þætti honum þá sanngjarnt endurgjald? Ættu menn bara að halda sig við þessar 9,50 kr. eða teldi hann að í árferði eins og það er í dag mætti það vera 10 kr. betur eða hvað finnst hv. þingmanni sanngjarnt í þessu efni?