Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 18:20:19 (12598)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur hvað varðar þjóðareignina, þá er ég þeirrar skoðunar að eins og orðið er notað í núgildandi fiskveiðistjórnarlögum lúti það að þessum fullveldisrétti ríkisins, ríkið hafi rétt til þess að ákvarða til dæmis heildarafla á fiskimiðunum í kringum Ísland rétt eins og ég tel að sú hugmynd að þjóðin eigi Ísland, að íslenska þjóðin eigi Ísland, hreyfi í engu því að bændur geti haft séreignarrétt á nýtingu á afmörkuðum svæðum landsins. En það hreyfir hvergi við valdi ríkisins til að setja um það almennar málefnalegar reglur sem eiga að lúta að því að auka sem best hag alls almennings. Þannig skil ég þetta nú.

Hvað varðar orðræðuna, það sem ég átti við þegar ég vísaði til fundarins hér fyrir utan í dag — ég er ekkert á móti því að menn haldi mótmælafundi, síður en svo, en mér fannst svolítið merkilegt þegar ég fór út og hlustaði á ræður að þar voru fluttar ræður sem voru innihaldsríkar, sem höfðu vissulega eitthvað að segja, menn gátu verið ósammála þeim, en ég tók eftir því að það var stanslaust verið að hrópa og reyna að kæfa niður ræðumennina. Ég held að það sé ekki skynsamlegt og ekki gott.

Varðandi það sem hv. þingmaður situr undir, og flokkur hans, að verið sé að gera árásir á landsbyggðina, ég ætla ekki neinum þingmanni það vitandi vits og viljandi að gera slíkt og ég hef aldrei tekið mér slík orð í munn. En ég er þeirrar skoðunar að afleiðingar þessa frumvarps, verði það að lögum, verði alvarlegar fyrir landsbyggðina, þær verði alvarlegar fyrir atvinnulífið úti á landi og þær verði alvarlegar fyrir byggðaþróunina á landsbyggðinni. Það er það sem skiptir máli og undir þeirri gagnrýni verða hv. þingmenn, virðulegi forseti, að sitja.