Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 18:37:45 (12602)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:37]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur sagt hér. Ef ákveðið hefur verið að í Speglinum hjá Ríkisútvarpinu verði talað við einhvern sem gagnrýnir það sem ríkisstjórnin leggur til er brotið blað. Því ber að fagna að tekin séu fyrir fleiri sjónarmið en það sem hefur að öllu jöfnu tíðkast í daglegu verklagi fréttastofu Ríkisútvarpsins sem er ekki fréttastofa heldur málstofa, hún er málflutningsstofa og Spegillinn er eins konar hæstiréttur í því dæmi. Það er með ólíkindum hvernig hlutirnir eru dregnir þar upp svo að pólitískur fnykur er af vinnubrögðum og verklagi. Helst er það, eins og dæmin sanna, í þágu Samfylkingarinnar en stundum fær garmurinn hann Ketill að fljóta með, Vinstri grænir. Þetta er það sem við Íslendingar búum við í nútímaþjóðfélagi.

Varðandi arðsemina þá er það alveg klárt að hagræðing undanfarinna ára hefur þýtt að skuldsetning hefur aukist vegna þess að svokallaður auðlindaarður hefur að verulegu leyti farið út úr greininni þegar kvóti hefur verið keyptur. Til þess hafa menn neyðst við skerðingu aflaheimilda til að geta haldið rekstrinum gangandi.