Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 18:44:34 (12605)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um frumvarp til laga um veiðigjöld, sem ég kýs að kalla veiðiskatt, hefur staðið dágóða stund og það er svo sem að vonum. Þetta er mikið mál og umdeilt í samfélaginu og fullkomin ástæða til þess fyrir okkur að fara rækilega yfir þessi mál til að gera okkur grein fyrir afleiðingum slíkra gjalda, hvort þau nái hinum yfirlýstu markmiðum og hvort einhverjir beri skaða af sem engin ástæða væri til.

Þegar maður fer yfir þessa umræðu kemur mjög margt upp í hugann sem áhugavert væri að ræða sérstaklega. Ástæða er til að fara yfir margt af því sem hér hefur verið haldið fram og ég ætla að freista þess að gera það að einhverju leyti á þeim fáu mínútum sem ég hef.

Ég hef eftir þessa umræðu nokkrar áhyggjur af ýmsum ástæðum sem mér finnst vert að vekja athygli á. Í fyrsta lagi hefur hún að nokkru leyti farið þannig fram að menn hafa ekki fjallað um efnisatriðin heldur frekar talað til manna með mjög sérkennilegum hætti. Hér á ég til dæmis við það þegar einstakir hv. þingmenn, og raunar fleiri sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, hafa kosið að gera lítið úr því fólki sem hefur haft ýmislegt við frumvarpið að athuga. Þeir hafa reynt að láta líta svo út sem það fólk gangi erinda einhverra hagsmunaaðila, það tjái í raun ekki eigin hug, það tali ekki út frá eigin brjósti, það segi ekki eigin skoðanir heldur endurspegli eða endurómi skoðanir einhverra annarra og hafi jafnvel verið keypt til þess. Mér liggur við að segja að þessu hafi verið haldið fram.

Umræða af þessu tagi er ekki samboðin nokkrum manni, hvorki okkur þingmönnum né þeim sem taka þátt í henni utan þingsalarins. Við hljótum að minnsta kosti að bera þá lágmarksvirðingu fyrir þeim sem tjá sig um þessi mál, jafnvel þó að við séum ósammála þeim, að við reynum að fjalla um skoðanirnar en gerum ekki lítið úr því fólki sem heldur þeim fram.

Ég tel til dæmis að það starfsfólk sem stóð þúsundum saman úti á Austurvelli í dag, frá sjávarútvegsfyrirtækjunum, hafi komið þangað að eigin ósk. Það var enginn þvingaður til að mæta á þennan fund. Þar tjáði fólk hug sinn. Ég stóð sjálfur í hópnum dágóða stund og hitti að máli fjölmarga sjómenn og fleiri sem ég kannast við úr þessum hópi. Það fór ekkert á milli mála að þetta fólk var mjög einlægt í áhyggjum sínum og andstöðu við þau frumvörp sem við ræðum þessa dagana á Alþingi.

Hið sama vil ég segja um ályktanir þeirra funda sem haldnir hafa verið úti um landið eða undirskriftir áhafna á skipum sem hafa sent okkur skoðanir sínar. Þetta fólk verðskuldar ekki að talað sé um það sem taglhnýtinga einhverra, heldur er þetta fólk að tjá hug sinn í þessu mikla máli. Þetta fólk hefur rökstudda ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu sinni og kjörum.

Bent hefur verið á að jafnvel eftir þær breytingar sem verið er að gera á frumvarpi til laga um veiðigjöld verða áhrifin af lagasetningunni neikvæð, sérstaklega þegar við skoðum frumvörpin tvö í samhengi. Ég ætla ekkert að gera lítið úr ýmsum þeim breytingum sem þar er verið að boða en ég held að flestir geti samsinnt þessu sem hafa skoðað þessi mál.

Eins og fram hefur komið í áliti fræðimanna sem hafa skoðað þessi mál er ljóst að þetta mun til dæmis hafa áhrif á launakjör sjómanna. Það er ekkert einkamat mitt. Fyrir atvinnuveganefnd komu fulltrúar sjómannasamtakanna í landinu og þeir voru ekki mjög myrkir í máli. Þeir sögðu einfaldlega að ef þessi frumvörp gengju eftir, eins og þeir höfðu þau þá á borðum sínum, teldu þeir að hlutaskiptakerfi sjómanna væri hrunið. Það kerfi er grundvöllur launaútreikninga sjómanna eins og við vitum sem þekkjum þarna til. Þá yrði að hverfa frá því hlutaskiptakerfi sem ég hygg að almenn sátt hafi verið um í þjóðfélaginu. Ég man að minnsta kosti ekki eftir að menn hafi talað fyrir því að setja upp einhvers konar fastlaunakerfi til sjós, að minnsta kosti ekki í fiskveiðum.

Það eru gríðarleg tíðindi þegar það spyrst út að forustumenn sjómanna, sem núna standa einmitt í kjarasamningum við útvegsmenn, skuli vera þeirrar skoðunar að frumvörpin geri hvorki meira né minna en að raska grundvelli launamála sjómanna í heild. Það eru gríðarleg tíðindi og þess vegna geta menn ekki leyft sér að gagnrýna málflutning sjómanna og starfsfólks sjávarútvegsfyrirtækjanna þegar því er ljóst af mati sínu að frumvörpin hafi þessi miklu áhrif á launakjör þess.

Annað atriði sem mig langar að nefna í þessu sambandi er sú kenning sem sérstaklega hefur verið borin upp í þessum ræðustól við þessa umræðu að þar sem verið er að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið af hálfu hv. meiri hluta atvinnuveganefndar sé verið að rýra tekjur ríkisins. Menn hafa reiknað sig upp í það að ef þetta er skoðað lækki tekjur ríkisins af veiðigjaldinu um 10 milljarða kr. á einhverju tímabili, mig minnir á þremur til fimm árum. Þessi forsenda stenst að sjálfsögðu ekki.

Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að forsendurnar fyrir veiðigjaldinu eins og það var lagt fram í frumvarpsformi á sínum tíma voru í raun aldrei til staðar. Þá er ég ekki tala um skekkjuna stóru sem birtist í lagatextanum, þá er ég bara að tala um þau markmið sem birtust í athugasemdum við frumvarpið, um 25 milljarða veiðigjald ef reiknað er út frá afkomu 2010. Að mati þeirra sem skoðað hafa þessi mál höfðu fyrirtækin aldrei neinar efnahagslegar eða fjárhagslegar forsendur til að standa undir þessari miklu gjaldtöku.

Þessar tekjur hefðu einfaldlega ekki innheimst ef menn hefðu keyrt veiðigjaldsfrumvarpið áfram, óbreytt frá því sem var, með hærri tölu án þess að taka tillit til skulda manna vegna kvótakaupa, svo ég taki bara einhver atriði sem máli skipta í þessu samhengi. Þetta var með öðrum orðum fugl í skógi en ekki í hendi og því er mjög sérkennilegt þegar menn tala á þann veg að það sé einhver gjafagjörningur til handa útvegsmönnum þegar verið er að lækka þessa gjaldtöku þegar við blasir að engar forsendur voru fyrir gjaldtökunni.

Það er mikið áhyggjuefni, og mér finnst við þurfa að ræða það hér, hvernig á því stendur að þegar farið er af stað í umtalsverðar breytingar á gjaldtöku í sjávarútvegi hafi ekki verið hugað nægilega vel að þessu. Við höfum verið með gjaldtöku í sjávarútvegi í um það bil áratug. Að sönnu hefur sú gjaldtaka verið tiltölulega lág sum árin. Ástæðan hefur meðal annars verið lág framlegð, sérstaklega vegna þess að gengi krónunnar var á tímabili allt of sterkt. Önnur ástæða er sú að við þurftum að skera þorskaflakvótann niður, t.d. á árinu 2007. Tekið var tillit til sérstakra aðstæðna eins og niðurskurðar í þorskinum á sínum tíma og þá var flutt frumvarp um að undanþiggja þorskinn tímabundið frá veiðigjaldinu til þess einfaldlega að gera fyrirtækjunum kleift að takast á við 33% skerðingu þorskkvóta, þriðjungssamdrátt í tekjum af þorskveiðunum. Á sínum tíma var líka tekin sú ákvörðun að lækka, og ég hygg afnema, veiðigjaldið í rækjunni af sömu ástæðu. Mönnum var ljóst að það voru engar forsendur fyrir því að viðhalda því veiðigjaldi.

Það er galli við veiðigjaldskerfið eins og það er í dag að þegar það er hækkað mjög mikið koma fram alls konar hliðarverkanir sem sannarlega eru til staðar í prinsippinu í því kerfi sem við höfum búið við en eru hins vegar ekki mjög skaðlegar vegna þess að gjaldið hefur ekki verið ýkja hátt. Í áliti auðlindanefndar frá árinu 2000 kemur fram að mat nefndarinnar sé að leggja eigi á veiðigjald en það eigi hins vegar að vera hóflegt. Hugmyndafræðin gekk út af fyrir sig út á það að hægt væri að leggja á hóflegt veiðigjald með þessari aðferð en það væri ekki hægt ef það ætti að vera mjög hátt. Þess vegna er þetta frumvarp komið út í miklar ógöngur eins og það er lagt fram.