Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 18:54:56 (12606)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hann fjallaði að miklu leyti um umræðuna eins og hún hefur þróast undanfarna daga. Það er eðlilegt því að það er mikið áhyggjuefni hvernig stjórnarliðar hafa kosið að ræða þetta mál. Menn ræða það ekki út frá kostum og göllum ákveðinna liða frumvarpanna, heldur nánast eingöngu nú orðið með uppnefningum og með því að búa sér til andstæðing og skipa mönnum svo í lið eftir því sem þeir telja henta.

Sú mynd er dregin upp að þeir sem ekki eru fylgjandi áformuðum breytingum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum gangi sérstaklega erinda LÍÚ. Menn kjósa einfaldlega að líta fram hjá þeim fjölmörgu umsögnum sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum reynt að vekja athygli á í umræðunni. Þar á ég við umsagnir frá sérfræðingum, frá Alþýðusambandi Íslands og ekki hvað síst frá sveitarstjórnum vítt og breitt um landið. Ef uppnefningar stjórnarliða ættu að halda væru þetta allt fulltrúar einhverra sérhagsmunaafla.

Ég er í raun að lýsa því yfir að ég hef áhyggjur af þessari umræðu, rétt eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ég tel sérstakt tilefni til að fjalla um það hvernig hefur verið haldið á henni. Hver er að mati hv. þingmanns ástæðan fyrir því að menn kjósa að setja umræðuna í þetta far? Ég hef mína kenningu um það. Hún er sú að stjórnarliðar telji að LÍÚ séu ekkert sérstaklega vinsæl samtök á Íslandi, hafi takmarkað fylgi og þess vegna henti best að reyna að búa til andstæðinga úr þeim og setja alla aðra andstæðinga, og það eru nánast allir þeir sem hafa skoðað málið á faglegan hátt, undir þann sama hatt. Menn telja sig búna að skilgreina LÍÚ sem einhvers konar gæslumenn sérhagsmuna og að þar með sé hægt að setja aðra undir sama hatt.