Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 19:28:34 (12619)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fram kom í sáttanefndinni eru menn sammála um meginsjónarmið og þess vegna hefði átt að vera hægt að vinna málið í sæmilegri sátt ef einhver vilji hefði verið til þess af hálfu stjórnarliðsins. Það hefði átt að vera hægt að ná sátt í þessu máli milli þingflokka hér í þinginu og vinna málið þannig að það stæðist skoðun fagmanna, en menn kusu að fara ekki þá leið. Það er hins vegar enn þá hægt að breyta þeirri stefnu og það er hægt að ná víðtækri sátt vegna þess að eins og hv. þingmaður nefnir eru menn sammála um meginnálgunina.

Það er hins vegar ekki sama hvernig menn framkvæma hlutina, hvernig útfærslan er, eins og við sáum á gölnum tillögum stjórnarliða um svokallaða þjóðaratkvæðagreiðslu, skoðanakönnun um stjórnarskrá, sem voru eingöngu til þess fallnar að villa um fyrir almenningi en höfðu ekkert með það að gera að bæta stjórnarskrána. Þar voru þeir sem gagnrýndu þá aðferðafræði sakaðir um að vilja ekki breyta stjórnarskrá. Það sama á við í þessu. Það á að vera hægt að ná saman um skynsamlegar leiðir ef menn annars vegar hafa fyrir því að ræða við annað fólk og eru hins vegar tilbúnir að hlusta á ábendingar sérfræðinga. En þegar menn eru tilbúnir í hvorugt, hvorki að taka mark á alvarlegum viðvörunum sérfræðinga né að ræða yfir höfuð við stjórnmálamenn aðra en þá sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum í þinginu á meðan á undirbúningi stendur, fer eins og farið hefur með þetta mál hér. Það hefði ekki þurft að fara svo því að það er rétt sem hv. þingmaður nefndi strax í byrjun, það ætti að vera hægt að ná sátt um grundvallaratriðin.